Póstþjónusta

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 17:15:26 (5548)

1997-04-21 17:15:26# 121. lþ. 108.4 fundur 545. mál: #A póstþjónusta# (einkaréttur ríkisins) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[17:15]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Samkeppnisráð tók hinn 16. febrúar 1995 ákvörðun sína nr. 8/1995, um erindi er ráðinu hafði borist vegna starfsemi Póst- og símamálastofnunar, en ákvörðunarorð hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Með vísan til 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga, nr. 8/1993, mælir samkeppnisráð fyrir um fjárhagslegan aðskilnað Póst- og símamálstofnunar annars vegar á þeirri póstþjónustu sem háð er einkarétti samkvæmt póstlögum, nr. 33/1986, og hins vegar á annarri póstþjónustu sem stofnunin innir af hendi. Skal þess gætt að póstþjónusta sem er háð einkarétti greiði ekki niður kostnað við aðra póstþjónustu. Fjárhagslegur aðskilnaður skal fara fram eigi síðar en 1. janúar 1996.

Máli þessu var áfrýjað til áfrýjunarnefndar sem staðfesti úrskurðinn að öðru leyti en því að síðasta málslið ákvörðunarorðanna var breytt á þann veg að aðskilnaðurinn skyldi fara fram eigi síðar en 1. janúar 1997. Samtímis töku ákvörðunar nr. 8/1995 sendi samkeppnisráð samgrh. álit sitt nr. 1/1995, álit um ákvæði póstlaga er varðar skilgreiningu á einkarétti Póst- og símamálastofnunar.``

Í áliti samkeppnisráðs segir m.a., með leyfi hæstv. forseta, undir fyrirsögninni: Skilgreining á einkaleyfisþjónustu í Evrópu.

,,Skilgreining á einkaleyfisþjónustu póstyfirvalda er óljós eins og áður er vikið að. Sama virðist gilda í öðrum löndum. Þannig er frá því greint í svonefndri grænbók um póstþjónustu á sameiginlegum markaði Evrópu að öll ríki Evrópubandalagsins hafi haft ákvæði í lögum þar sem fram hafi komið að bréfapóstur væri hluti af einkaleyfisþjónustu viðkomandi póststofnunar ríkjanna. Hins vegar sé bréf ekki skilgreint hjá öllum ríkjunum og skilgreiningin sé mismunandi og ekki alltaf ljós hjá þeim ríkjum sem skilgreina hugtakið. Bent er á að starfsmenn póstþjónustu skilgreini bréf á annan hátt en leikmenn eða viðskiptavinir. Fram kemur að ekki er til algildur munur á því sem kallað er bréf og því sem kallast böggull. Starfsmenn póstþjónustu skilgreina pakka sem bréf þótt ekki sé ljóst hver sé munurinn á böggli og pakka þar sem vörur eru innihald beggja og þjónusta í kringum þá svipuð.

Ef viðskiptavinur póstleggur sendingu sem pakka fellur hún undir einkaleyfisþjónustu en ef hann sendir hana sem böggul er hún ekki háð einkaleyfi. Svipuð vandamál tengjast skilgreiningunni á hraðþjónustu. Til að komast hjá vandanum við skilgreiningu á sendingum hafa sum Evrópulönd notað verðflokkun til að aðgreina einkaleyfispóstþjónustu og aðra póstþjónustu.

Með vísan til markmiðs samkeppnislaga, nr. 8/1993, samanber 1. gr., vekur samkeppnisráð athygli ráðherra á eftirfarandi áliti sem birt er á grundvelli 19. gr., samanber d-lið 2. mgr. 5. gr. laganna. Í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 8/1995 vegna erindis Póstdreifingar hf. kemur fram að ráðið telur forsendur þess að koma megi á virkri samkeppni í póstþjónustu að fjárhagslega verði skilið á milli þess hluta póstþjónustu Póst- og símamálastofnunar sem rekin er samkvæmt einkarétti og þess hluta sem ekki er háður einkarétti. Að mati samkeppnisráðs er þörf á nánari skilgreiningu á einkarétti Póst- og símamálastofnunar samkvæmt póstlögum, nr. 33/1986, til þess að unnt sé að koma fjárhagslegum aðskilnaði við í skilningi samkeppnislaga. Samkeppnisráð bendir á það markmið í póstmálum og sameiginlegum markaði Evrópusambandsins að sérhver þáttur póstþjónustu beri þau gjöld sem honum tengist. Til að svo megi verða þarf að skilgreina einstaka þjónustuþætti póstsins með tilliti til kostnaðar.

Skilgreining í gildandi póstlögum, nr. 33/1986, á einkarétti Póst- og símamálastofnunar til póstþjónustu er óskýr með hliðsjón af markmiði samkeppnislaga m.a. að því leyti að réttarstaða þeirra einkafyrirtækja sem hyggja á póstþjónustu er óljós og getur takmarkað aðgang keppinauta að markaðnum umfram það sem einkaréttarákvæðinu er ætlað að gera. Samkeppnisráð bendir á nauðsyn þess að einkaréttarákvæði póstlaga verði skilgreind nánar svo að ekki leiki neinn vafi á því hvaða póstþjónusta er háð einkarétti. Þá þarf að taka tillit til þess hvaða kostnaður liggur að baki einkaréttarþjónustunni.

Einnig vekur samkeppnisráð athygli ráðherra á þeirri þróun í Evrópu sem felst í því að verið er að draga úr einkarétti póstyfirvalda hvers lands til póstdreifingar eða afnema hann með öllu.``

Svo mörg voru þau orð Samkeppnisstofnunar og styð ég efnislega það frv. sem hér liggur fyrir.

Í frv. til laga um póstþjónustu sem lagt var fram á sl. hausti var í 1. mgr. 6. gr. þess kveðið á um einkarétt ríkisins og hann skilgreindur nákvæmlega með sama hætti og lagt er til í frv. því sem hér liggur fyrir með þeirri breytingu þó að hér er í 2. gr. gert ráð fyrir mikilsverðu fráviki þar sem segir að Póst- og fjarskiptastofnun geti, þegar sérstakar ástæður mæli með því, heimilað einstaklingum og lögaðilum, öðrum en einkaréttarhafa, póstmeðferð og póstsendingu samkvæmt 1. mgr. 6. gr., enda sé slík starfsemi til almannaheilla og ekki í atvinnuskyni. Hér er þetta frávik lagt til vegna þess að ýmis góðgerðarfyrirtæki, íþróttafélög eða skátar hafa boðið út jólakort eða opin sendibréf og var, eins og ég skildi á samgn., talið fullhart aðgöngu að koma í veg fyrir slíka starfsemi og var af þeim sökum staðið við þá gömlu skilgreiningu eða a.m.k. stuðlað að því að svo var gert. Hin nýja skilgreining án fráviksins, sem ég gerði þó grein fyrir og er forsendan fyrir því að hægt er að leggja málið fyrir þingið að nýju, er í samræmi við þá skilgreiningu sem flestar þjóðir á Evrópska efnahagssvæðinu hafa tekið í löggjöf sína og ráðherranefnd hefur orðið sammála um að skuli felld í tilskipun um póstþjónustu er gilda á svæðinu, eins og fréttatilkynning ráðsins frá 20. desember 1996 ber með sér. Skilgreining sú er til þess fallin að auðvelda nauðsynlegan fjárhagslegan aðskilnað í bókhaldi milli þeirrar starfsemi sem háð er einkarétti annars vegar og annarrar starfsemi.

Svo sem kunnugt er gerði Alþingi að tillögu samgn. þá breytingu á frv. við lokaafgreiðslu þess í desember sl. að taka óbreytt ákvæði póstlaganna nr. 33/1986, um einkarétt, inn í lögin. Sú skilgreining var þó talin vera bæði svo óljós og teygjanleg að örðugt væri, ef ekki óframkvæmanlegt, að nota hana við aðgreiningu rekstrarþátta þeirra er háðir voru einkarétti frá hinum er utan hans féllu. Hvernig hefði t.d. verið unnt að halda aðgreindum tekjum af sölu frímerkja, sem notuð væru á póstkort, frá sölu þeirra sem færu á lokuð bréf? Hvernig ætti að skipta kostnaðinum við móttöku, flokkun, flutning og skil póstkortanna frá kostnaðinum við áritaðan bréfapóst?

Með þeirri breytingu sem hér er lagt til að gerð verði á skilgreiningu einkaréttarins í 1. mgr. 6. gr. laganna er fjárhagslegur aðskilnaður milli rekstrar sem háður er einkarétti gerður mögulegur þannig að fullnægjandi sé. Þá fyrst er unnt að framkvæma þann fjárhagslega aðskilnað sem kveðið er á um í öðrum ákvæðum laganna sjálfra, sbr. t.d. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 142/1996, en þar segir m.a.:

,,Sá þáttur rekstrarleyfishafa sem lýtur leyfisbundinni starfsemi hér á landi skal vera bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi leyfishafans.``

Jafnframt væri skilgreiningin í samræmi við kröfur aðildarríkja á Evrópska efnahagssvæðinu og tilmæli þau og fullnægt þeim tilmælum sem fram komu í fyrrnefndu áliti nr. 1/1995, sem samkeppnisráð sendi samgrh. á sínum tíma og hann fallist á eins og frv. í sinni upprunalegu mynd bar með sér.

Hv. alþingismönnum er trúlega kunnugt um það að samgrh. er ekki jafnsáttur við allar ákvarðanir eða álitsgerðir samkeppnisráðs er það hefur látið frá sér fara eftir 16. febr. 1995. En vegna þeirra breytinga sem hér er gerð tillaga um að gerð verði á lögum um póstþjónustu og rökstudd var m.a. með áliti samkeppnisráðs er skylt að geta þess að hinn 20. desember sl., einmitt hinn sama dag og hv. alþm. voru að samþykkja lögin um póstþjónustu, tók samkeppnisráð ákvörðun sína nr. 48/1996 vegna erindis um kvörtun á Póst- og símamálastofnun. Þeirri ákvörðun var ætlað að taka til starfsemi Pósts og síma hf. þótt það félag hefði þá ekki verið stofnað eða tekið til starfa. Það sem er einkennandi fyrir þessa ákvörðun er sú staðreynd að hún gengur miklu lengra en hin fyrri og þótt henni hafi ekki verið ætlað að koma til framkvæma fyrr en einum mánuði eftir að Póst- og símamálastofnun væri lögð niður sem slík og starfsemi hennar þá verið skipt og færð til annarrar stofnunar og aðila í breyttu lagaumhverfi. Þannig er tekið fram á bls. 33 og 34 í forsendum ákvörðunarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

,,Með hliðsjón af þeirri réttarþróun sem átt hefur sér stað varðandi beitingu 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga frá því að ákvörðun nr. 8/1995 var tekin þykir nauðsynlegt í ákvörðun þessari að setja fram bindandi fyrirmæli sem koma eiga í veg fyrir undirverðlagningu. Fyrirmælunum er einnig ætlað að tryggja enn frekar að víxlniðurgreiðsla geti ekki átt sér stað á milli þess hluta Pósts og síma sem lýtur einkarétti og þess hluta þjónustunnar sem er í samkeppni við aðra. Ákvörðun þessi er því að þessu leyti til stuðnings og fyllingar ákvörðunar nr. 8/1995.``

Svo mörg eru þau orð. Ég vil vekja athygli hv. þingheims á því sem Samkeppnisstofnun segir hér að fyrirmælunum sé einnig ætlað að tryggja enn frekar að víxlniðurgreiðsla geti ekki átt sér stað á milli þess hluta Pósts og síma sem lýtur einkarétti og þess hluta þjónustunnar sem er í samkeppni við aðra. Óhjákvæmilegt er að skilja orðanna hljóðan svo, að þau lúti að því að hvorki sé leyfilegt að einkaréttarsviðið greiði fé til samkeppnissviðs né samkeppnissviðið til einkaréttarsviðsins, sem er nokkuð langt gengið svo ekki sé meira sagt.

Ákvæði 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga var sett til þess að tryggja að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur með tekjum af starfsemi einkaleyfisþjónustu eða verndaðri starfsemi. Ákvæðið bannar hins vegar ekki eða setur neinar takmarkanir við því að notaður sé hagnaður af samkeppnisstarfsemi til þess að styrkja starfsemi sem rekin er í skjóli einkaleyfis. Þess vegna er þessi ákvörðun samkeppnisráðsins að mínu mati andstæð fyrrgreindu ákvæði 14. gr. samkeppnislaganna en kæruefni það sem til umfjöllunar var hjá samkeppnisráðinu var einmitt vegna starfsemi sem var utan einkaréttarsviðs en var til þess fallin að skapa auknar tekjur til hagsbóta fyrir starfsemi einkaréttarsviðsins sem rekin hafði verið með tapi. Tekjur samkeppnisstarfseminnar komu þannig til styrktar fastakostnaði einkaréttarstarfseminnar með hagkvæmari nýtingu framleiðsluþátta og aðstöðu sem fyrir voru, svo sem tilfellið er og gert er í nálægum löndum.

Þá kveður ákvörðun samkeppnisráðs á um stjórnunarlegan aðskilnað þar sem samkeppnislögin heimila ráðinu eingöngu að kveða á um fjárhagslegan aðskilnað í bókhaldi. Hvergi er að finna neina heimild til handa samkeppnisráði til slíkra ákvarðana. Er þess enda að vænta að gildi ákvarðana sem þessara verði bornar undir dómstóla því að auðséð hlýtur að vera að farið hefur verið út fyrir heimildir.

Ég vil endurtaka að það er auðvitað mjög erfitt að koma auga á það hvernig Samkeppnisstofnun hugsar sér að stjórnunarlegur aðskilnaður geti verið á þeirri starfsemi póstsins sem lýtur að því að bera út lokuð umslög og þeirri sem lýtur að því að bera út póstkort og opin umslög. Raunar er þessi niðurstaða og einnig hitt að úrskurðurinn verði ekki skilinn með öðrum hætti en svo að færa megi á hvorugan veg, frá einkaréttarsviði yfir á samkeppnissvið né frá samkeppnissviði yfir á einkaréttarsvið. Ástæðan fyrir þessum frumvarpsflutningi nú, og ég sé satt að segja ekki annað ef Alþingi felst ekki á þá breytingu sem felst í frv. en ég hljóti að íhuga það að póststarfsemi hér á landi verði gefin algerlega frjáls því ekki er hægt að reka starfsemina með þeim þröngu skilmálum og í þeirri úlfakreppu sem úrskurður samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar setur Póst og síma hf. í.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.