Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 18:03:49 (5552)

1997-04-21 18:03:49# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., Frsm. 1. minni hluta JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[18:03]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er ekki hægt að tryggja erlenda eignaraðild og menn gætu út af fyrir sig spurt sjálfa sig sem svo: Er líklegt að erlendir fjárfestar telji það girnilegan fjárfestingarkost að kaupa minni hlut, tiltölulega lítinn hlut, í samfélagi við áformaða fjögurra ára meirihlutaeign ríkisins við rekstur á bönkum í ljósi þess sem vitað er um afkomu og styrk íslenska bankakerfisins? Sennilega hefði verið mun líklegra að vekja áhuga erlendra fjárfesta ef þeirri aðferð sem ég mælti sérstaklega með hefði verið beitt eða sú leið hefði verið farin að prófa sig áfram með því að selja annan bankann í einu og láta síðan reynsluna skera úr um framhaldið. Það hefði sennilega verið leið sem hefði freistað frekar þátttöku útlendinga í slíkum rekstri.

Við spurðum sérstaklega þann erlenda ráðgjafa sem ráðherra var til ráðuneytis um þetta atriði að því er varðaði undirbúningsnefnd málsins, nefndina sem undirbjó frv. og skilaði þremur frumvörpum og var síðan sett af eins og er orðin lenska í þessu stjórnarsamstarfi, hvort einhverjar umræður hefðu farið fram um það innan nefndarinnar og fengum þau svör að þeir teldu harla litlar líkur á slíkum áhuga. Hins vegar svaraði fulltrúi J.P. Morgan, sem reyndar er sænskur að þjóðerni og þekkir vel til á skandinavíska markaðnum, því aðspurður að hann teldi alls ekki útilokað að unnt væri að vekja áhuga á slíkum fjárfestingum, t.d. á Norðurlandamarkaðnum, en þá þyrftu menn kannski að hafa að því frumkvæði að kynna hvað í boði væri og kynna íslenska fjármagnsmarkaðinn og þá hefði auðvitað skipt mestu máli að hér hefði legið fyrir áætlun til nokkurra ára fram í tímann um hvernig þetta skyldi gert og að það væri gert með eðlilegum hætti. Það er hluti af gagnrýni okkar á þá leið sem stjórnarflokkarnir hafa samið um sín í milli að þetta er allt saman hálfkarað og hálfbakað og þess vegna ekki líklegt til þess að skila þessum merkilega árangri.