Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 18:06:21 (5553)

1997-04-21 18:06:21# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[18:06]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessar skýringar. Ég get fallist á þær að mestu leyti. Ég held að það sé rétt að eins og málið stendur núna er ekki fýsilegur kostur fyrir erlenda aðila að koma að þessu máli. Ég þykist vita að það sem fyrir þingmanninum vakir þegar hann talar um erlenda aðila sé einmitt til þess að reyna að tryggja sem dreifðasta eignaraðild og jafnframt þar með að koma í veg fyrir það sem margir óttast við framhald þessa máls, að það verði fyrst og fremst þeir aðilar sem þegar eru býsna sterkir hér á fjármálamarkaði sem muni kaupa hluti í bönkunum og ná á þeim tökum hugsanlega einhvern tíma í framtíðinni, en það fer mjög eftir því hvernig á málum verður haldið.

Sú leið sem er farin og er hluti af samkomulaginu milli stjórnarflokkanna, að bíða átekta í fjögur ár og leyfa bönkunum að prófa sig áfram á þessum markaði, er að sumu leyti eðlileg en hefur líka ákveðna galla í för með sér þegar menn eru að fara út í þessar breytingar á annað borð.