Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 21:56:13 (5561)

1997-04-21 21:56:13# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., Frsm. meiri hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[21:56]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki betur séð en að hér í salnum sé enginn flokksbróðir minn sem geti vitnað um þessa sagnfræði. Hér er aðeins hv. þm. Pétur H. Blöndal en hann er nýliði hér eins og ég þannig að það er dálítið fyrir neðan belti að benda á þetta hér og nú þar sem enginn er til varnar um hvað gerðist þarna. En það er þá til athugunar ef það hefur dvalið orminn langa árin sem við sátum saman í stjórn, flokkurinn minn og kratarnir, frá árinu 1991--1995, að það hafi verið Sjálfstfl. að kenna að ekki tókst að leggja fram slíkt frv. eins og nú hefur tekist. (Gripið fram í.) Nei, ég vissi þetta ekki og ég held að þingheimur hafi ekki vitað þetta. Þetta kemur þá til rannsóknar og það kemur tækifæri til að ræða þetta aftur hér vegna þess að þetta er ekki síðasti þingfundurinn sem við höldum og finnum við þá ráð til að leiða fram vitnin sem til þarf. (Gripið fram í: Hefur Matthías Bjarnason ekki sagt þér frá ...) Nei, nei. Hitt er svo annað að engin ástæða er til að rjúfa sátt og samlyndi við framsóknarmenn í þessari stjórn sem við stöndum með þó svo að frjálslyndir kratar ofbjóði kannski nokkrum valinkunnum framsóknarmönnum og komi með betri tillögu að sinni en sumir þeirra hafi lyst á því þetta er spurning um að vera nógu hygginn. Úr því að það fór nú svona illa við síðustu kosningar að hinn ágæti jafnaðarmannaflokkur í sameiningarviðleitni sinni klofnaði nú rétt einu sinni og varð ekki hæfur til að sitja með okkur í ríkisstjórn og við höfum þess vegna verið í farsælu samstarfi við Framsfl. það sem af er kjörtímabilinu, þá held ég nú að menn láti slag standa a.m.k. fram yfir næstu kosningar að sjá hvort sameining vinstri manna tekst svo vel að þeir verði hæfir til samstarfs, svo frjálslyndir og svo nærri okkur um hugsjónir allar, eins og þeir kveðjast vilja vera og segjast standa, um hvernig við göngum fram í banka- og viðskiptamálum þessarar þjóðar. (Gripið fram í: Þrátt fyrir allt ...)