Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 21:58:32 (5562)

1997-04-21 21:58:32# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., ÓÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[21:58]

Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú upplýst að vafamál er hvort hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur boðið sig fram fyrir réttan flokk og því síður hvort hann hefur kosið rétt eftir 1970 eða hvort það hefur allt verið á misskilningi byggt. Hér er það upplýst að hann telur að Framsókn og Alþfl. hafi stöðvað framþróun alla á þessu tímabili. En ég tel að það sé rétt að spurt sé: Hvað dvaldi háeff á Sölumiðstöðina? Varla stóðu þessir flokkar þar gráir fyrir járnum og stoppuðu framþróun. Auðvitað er það svo að á hverjum tíma liggja ýmsir straumar um íslenskt þjóðfélag. Ríkisbankarnir voru settir af stað vegna þess að sá einkabanki sem hér starfaði, Íslandsbanki, varð gjaldþrota. Sennilega er það svo með Matthías Bjarnason að hann hefur þekkt persónulega marga sem töpuðu öllu sínu sparifé í því ævintýri. Ísafjörður tapaði mestöllu sínu sparifé þegar Íslandsbanki fór á höfuðið. Þetta veit ég að hv. þm. Einar Oddur veit. Þeir sem vissu um afleiðingar þess hikuðu nú við að segja: ,,Alþýða Íslands á ekki að hafa þann möguleika að geta lagt fé inn í banka þar sem tryggilega er frá því gengið að féð tapist ekki.`` Það voru ríkisábyrgðir á ríkisbönkunum og það var ekki út í bláinn. En það má líka fara yfir þessa sögu sem er rituð af Ólafi Björnssyni og margir þingmenn hafa vafalaust lesið, að hinir erlendu aðilar, í Evrópu, fengu sitt greitt vegna þess að talið var að viðskiptatraust þjóðarinnar þyldi ekki að þeir yrðu skildir eftir úti í kuldanum og þar yrðu ekki gerðar upp skuldir. En einhverra hluta vegna varð það nú svo að Milljónafélagið og margir fleiri virtust hafa ótrúlega gott gengi inni í þessum banka, langt fram yfir það sem eðlilegt lánstraust gat talist.