Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Mánudaginn 21. apríl 1997, kl. 22:06:43 (5566)

1997-04-21 22:06:43# 121. lþ. 108.6 fundur 409. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[22:06]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala um fortíðina og ég ætla ekki að tala um síðasta áratug. Ég ætla að ræða pínulítið um framtíðina.

Það er rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni og ég tek undir flest allt sem hann sagði að þetta er lítið skref en það er mikilvægt skref engu að síður. Ég hefði viljað sjá það miklu stærra. En það er alltaf til fólk sem óttast breytingar og við verðum að bera virðingu fyrir því ef einhver er hræddur við eitthvað og þá verðum við að reyna að róa hann og sýna honum fram á að það sem hann óttast er ekki svo skelfilegt.

Ég man eftir því þegar átti að taka upp frjáls gjaldeyrisviðskipti og Íslendingurinn átti að geta keypt gjaldeyri eins og hann vildi. Margir sáu það sem einhverja gífurlega ógn. Nú mundi allur gjaldeyririnn streyma úr landi og ég man ekki allar þær fortölur og það sem átti að gerast. Svo var gengið gefið frjálst og hver mátti kaupa það sem hann vildi og það gerðist bara ekki neitt. Þá hættu menn að vera hræddir og nú talar enginn um þetta lengur.

Ég er viss um að þegar líður fram á haustið og landið er ekki komið á hausinn út af þessari breytingu þá munu menn sjá að það er kannski allt í lagi að selja svo sem eins og 36% í bönkunum í staðinn fyrir 35% af því þá eru menn ekki lengur hræddir. Það þarf að taka tillit til þess og bera virðingu fyrir þeim sem eru hræddir við breytingar því menn vita hvað þeir hafa en þeir vita ekki hvað kemur. Og það er mikilvægt.

Herra forseti. Ríkisáhrif á fjármálamarkaði vaxa hröðum skrefum þessa dagana. Er þar fyrst að nefna kaup Landsbankans á helmingnum í VÍS sem gerðist daginn eftir fyrri umræðu þessa frv. Menn þurfa þess vegna eiginlega að endurskoða ræðurnar sínar með tilliti til þess.

Nú stendur til að selja 35% hlutdeild í Landsbankanum og Búnaðarbankanum og ef það gengur eftir þá er búið að setja inn í þessa banka u.þ.b. 5--10 milljarða af fé almennings væntanlega en undir ríkisforsjá. Það verður opinber starfsmaður sem stýrir þessu á einhvern máta. Og það er meiningin að selja 49% í Fjárfestingarbankanum en þar koma aftur 4--6 milljarðar ef tekst að selja hann og það er aftur undir ríkisforsjá. Ríkið stýrir þeim banka með 51%. Niðurstaðan af öllu þessu er sú að ríkisáhrif á fjármálamarkaðinum stóraukast bæði í bankakerfinu og núna líka á tryggingamarkaðinum. Þetta er dálítið vandræðalegt sérstaklega með tilliti til þess að útlendir ráðgjafar eru stöðugt að ráðleggja okkur að minnka ríkisforsjá á þessum markaði til þess að auka samkeppni.

Ég ætla ekki að fara nánar í brtt. sem meiri hluti efh.- og viðskn. gerir en þær eru allar til bóta. T.d. það að vera ekki að setja 75% mörk á hlutafé í byrjun, það er náttúrlega algjör óþarfi. Hlutaféð skiptir í rauninni engu máli nema hvað varðar útgreiðslu arðs sem á að vera 7% af hlutafénu. Það er það eina sem ég sé að skipti einhverju máli. Eftir því sem hlutaféð er hærra þeim mun meira er hægt að borga út af arði en það gerir líka meiri kröfur til arðsemi í bankanum og þess vegna eru bankastjórarnir kannski hræddir við það. En þeim er hægt að segja að þeir þurfa ekki endilega að borga út hámarksarð.

Síðan er breyting á því að áður stóð að ekki væri skylt að gefa út hlutabréf. Nú á ráðherra að ákveða skiptingu hlutafjárins. Þetta er náttúrlega heilmikið til bóta og gerir það yfirleitt mögulegt að selja bankann. Hann er ekki lengur undanþeginn stimpilgjöldum sem ég taldi vera mjög óeðlilegt, að vera með einhver forréttindi. Það á að selja hlut í bönkunum en það hefur verið nefnt að sennilega verður ekki selt hlutafé í Búnaðarbankanum vegna þess að hann er þegar yfirfjármagnaður í þeim skilningi að sérhver króna sem sett er inn í hann gefur ekki nægilegan arð. Það er því ekki skynsamlegt að selja í honum. En ég nærri sannfærður um að menn munu sættast á það að selja hlut ríkisins innan ekki langs tíma til að ná sömu áhrifum.

Svo segir hérna í nál. meiri hlutans, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þá vill meiri hlutinn taka fram að hann lítur svo á að eðlilegt sé að einungis einn bankastjóri starfi í hvorum banka fyrir sig eftir formbreytinguna.`` Eins og mönnum er kunnugt þá eru nál. lögskýringargögn þannig að mér þætti gaman að sjá menn setja þarna tvo eða fleiri bankastjóra eftir að hafa slíkt lögskýringargagn í nál. meiri hluta efh.- og viðskn., sérstaklega ef tillögur hennar verða samþykktar sem ég geri fastlega ráð fyrir. Allt er þetta til bóta, engan veginn er gengið nægilega langt en mikið til bóta.

Herra forseti. Maður kann að spyrja sig: Hver vill kaupa banka þar sem ríkið á 65% eignarhluta og með opinbera starfsmenn sem formenn bankaráðs? Hver vill það eiginlega? Og með alls konar vandræðalán í farteskinu, gamlar, pólitískar lánveitingar og með óhagstætt útibúanet? Hvers vegna skyldu menn festa mikla peninga í svona stofnun í stað þess að stofna bara nýjan banka með þeim sömu peningum? Þetta er góð spurning. Ég hugsa að það verði breytingar fyrr en menn eiga von á. Menn munu nefnilega, til þess að selja þessa banka, verða að gera á þeim breytingar eða gefa væntingar um að það verði breytingar, að einhvern tímann hætti þessi formaður bankaráðs, sem er opinber starfsmaður, og nýir hluthafar geti fengið einhvern aðila sem ber kennsl á nútímabankaviðskipti. Þannig að ég hef þá trú að þegar mesti óttinn er rokinn úr mönnum þá muni þeir samþykkja breytingar og sérstaklega þegar samkeppnin verður farin að þjarma illilega að þessum nýju bönkum, svona upp úr næstu áramótum eða jafnvel fyrr, þá muni menn hreinlega verða að grípa til breytinga fyrr en seinna. Eins og ég gat um við 1. umr. þá mun þetta mál þannig leysast af sjálfu sér. Menn munu uppgötva að hlutahafavæðingin gerir svo sem ekki neinn skaða og þetta er ekki eins voðalegt og þeir sem óttast það halda.

Síðan kemur annað. Í haust mun renna upp fyrir mönnum, og er þegar farið að renna upp fyrir nokkrum, að þær framkvæmdir sem menn hafa ákveðið að fara út í með álverið, þær skattalækkanirnar sem menn ætla að fara út í og launahækkanirnar munu valda um 80--90 milljarða halla á viðskiptum landsins við útlönd á næstu þremur árum, þ.e. erlendar skuldir þjóðarinnar vaxa um 80--90 milljarða ef ekkert er að gert.

Eitt ráð við því --- það eru reyndar nokkur ráð við því en eitt er að stöðva framkvæmdir ríkissjóðs. Það er slæmt vegna þess að framkvæmdir ríkissjóðs eru ekkert voðalega miklar. Annað er að reyna að lokka inn peninga af þessum launahækkunum og skattalækkunum frá almenningi.

Ég er með glimrandi hugmynd í því sambandi. (Gripið fram í: Á eyðslu?) Frá eyðslunni, já. Við bjóðum öllum Íslendingum kauprétt í þessum bönkum. Þeir mega kaupa hlutabréf á genginu 1 --- og við höfum það það lítið hlutafé og þar getur hæstv. ráðherra ákveðið með hlutaféð þannig að gengið ætti að vera 2 eða 11/2 --- og síðan bjóðum við almenningi, hverjum einasta Íslendingi, kauprétt í þessum bönkum og Pósti og síma líka. (Gripið fram í: Við getum það ekki, hann á bankann, íslenskur almenningur á bankann.) Það er svo aftur önnur saga, ég skil ekki af hverju hann hefur ekki náð í hann. Auðvitað má gefa almenningi kauprétt í þessum banka og við það mundu allir sem vilja nýta sér þennan kauprétt, það verður hagnaður af því að nýta hann, og almenningur yrði að losa fé. Hann er að taka þetta af launahækkun sinni og skattalækkun og það mundi slá á þensluna. Þetta væri eitt ráð sem hægt væri að nota. Að sjálfsögðu mætti útfæra þetta þannig að það gerðist á löngum tíma þannig að fólk réði þokkalega við þetta og þetta væri ráð til að slá á þensluna.

Ég held nefnilega að þegar fram líða stundir þá verði næsta skref, sem við þurfum að taka, hreinlega ekkert mál. Fyrsta skrefið er alltaf erfiðast vegna þess að menn eru hræddir við framtíðina og menn þurfa að bera virðingu fyrir ótta manna við breytingar og ef menn gera það þá ná þeir fram svona breytingum sem hægt og rólega breyta stöðunni.