Skráning skipa

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 15:04:12 (5619)

1997-04-22 15:04:12# 121. lþ. 109.17 fundur 217. mál: #A skráning skipa# (eignarhlutur útlendinga) frv., Frsm. KPál (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[15:04]

Frsm. samgn. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 115 31. desember 1985, um skráningu skipa, með síðari breytingum. Þetta er nál. frá samgn.

Þetta frv. til laga er flutt til þess að samræma lög um skráningu skipa við lög um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34 25. mars 1995, og lög nr. 46 22. maí 1996. Það er verið að bæta þeim köflum sem komu fram á síðasta þingi um fjárfestingar erlendra aðila inn í gömlu lögin um skráningu skipa.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, skrifstofustjóra í samgönguráðuneyti, og Svein Snorrason hrl.

Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Verslunarráði, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Seðlabanka Íslands, Samtökum iðnaðarins, Sjómannasambandinu, Vélstjórafélaginu, Farmanna- og fiskimannasambandinu, laganefnd Lögmannafélags Íslands og Sveini Snorrasyni hrl.

Eftir umfjöllun um málið leggur samgn. til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem í nál. fylgja.

Kristín Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu. Hv. þm. Magnús Stefánsson var fjarverandi.

Ég legg til að málið verði samþykkt, herra forseti.