Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 16:41:49 (5632)

1997-04-22 16:41:49# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:41]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Þeir hafa í sjálfu sér gert grein fyrir sínum sjónarmiðum. Það var gert áðan í ágætri ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. En ég verð nú að segja eins og er að ég botnaði ekki mikið í henni, en það voru út af fyrir sig hans rök sem hann flutti þá. En ég er að reyna að fá hv. þm. Pétur H. Blöndal til að skýra það hvernig á því stendur að þessir menn, flokksbræður hans og -systur, ætla að ganga þessa braut sem er jafnvitlaus og raun ber vitni. Hv. þm. svaraði því ekki. Hann var með óljóst tal um samhljóm sálna sem ég gef ekki mikið fyrir, ég kann ekkert á það heldur. Það er á annarra manna færi en mínu að greina sálnafar sérstaklega. En hver eru rökin? Eru þetta eingöngu valdapólitísk rök? Er það þannig? Er verið að koma einhverjum gæðingum Sjálfstfl. í stöðu? Er það þess vegna sem Íslandsbanki segir eitt en formaður bankaráðs Íslandsbanka allt annað? Er þetta valdabraskið lifandi komið? Er þetta klíkuveldið á Íslandi sem hér á ferðinni? Ætti þetta að heita frv. til laga um klíkubanka ríkisins? Hver er skýringin hv. þm.?