Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 16:43:12 (5633)

1997-04-22 16:43:12# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., Frsm. 2. minni hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:43]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er mjög uppekinn af klíkuskap í dag og hefur margoft getið þess. Ég hygg nú að ekkert slíkt sé á bak við þetta. Hann hlýtur að átta sig á því að ég get ekki svarað fyrir skoðanir eða hugsanir annarra hv. þm. Ég get heldur ekki verið að skýra skoðanir og athafnir annarra þingmanna, það er eðlilegast að spyrja þá sjálfa að því. (SvG: Ég er búinn að því.) Nei, hv. þm. fór ekki í andsvar við hv. þm. Einar Odd Kristjánsson og er þar af leiðandi ekki búinn að spyrja hann að því af hverju hann rökstyður þetta svona. En eins og ég gat um þá get ég alveg séð fyrir mér vissa tregðu sem stafar af ótta við breytingar. Svo er líka það að menn þurfa að ná málamiðlun. Það eru margir sem koma að þessu máli og margir sem eru hræddir við breytingar vegna þess að breytingar eru eitthvað sem maður þekkir ekki. Menn vita hvað þeir hafa og það má vel vera að til að ná fram breytingum þurfi að stíga lítið skref í einu. Við sáum það t.d. með hlutafélagsvæðingu ríkisbankanna, að þar þurftu menn að stíga mjög lítil skref. Og ég stóð að því, jafnvel þótt ég vildi stíga miklu stærri skref, því ég tel að þau skref séu betri en engin. Aftur á móti tel ég að þetta skref sé verra en ekkert, en það má vel vera að aðrir þingmenn meti það öðruvísi.