Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 17:34:21 (5635)

1997-04-22 17:34:21# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., Frsm. 1. minni hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[17:34]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að hv. þm. Ágúst Einarsson hneykslast mjög á áliti 1. minni hluta og kvartar yfir því að fáar brtt. kom hér fram. Það liggur í hlutarins eðli að auðvitað komum við með fáar brtt. fram því hér er verið að hreyfa máli sem ekki hefur tekist að hagga eða hreyfa áratugum saman en allir vita að er mjög brýnt. Það hefur ekki tekist að hreyfa við því vegna þess að málið er mjög viðkvæmt, á sér margar rætur og tregðan er víða. En það er mikið afrek að koma því af stað. Ríkið er að fara út úr þessum sjóðum. Það á strax að fara að selja 49% og við trúum því allir sem hér erum að það verði bara byrjunin, við ætlum að selja þetta mjög fljótlega. Í átta ár sátu jafnaðarmenn í viðskrn., í átta ár gátu þeir ekki hreyft þetta mál. Þeir gátu ekki komið því eina tommu áfram. Eina afrekið sem ég man eftir í augnablikinu að þeir kæmust lengst í að breyta sjóðunum var á aðalfundi iðnrekenda en þar mætti einn af forustumönnum kratanna, Jón Sigurðsson, fyrrv. ráðherra, og gaf Iðnlánasjóð, tilkynnti að nú ætti að gefa sjóðinn. Að vísu gekk það aðeins til baka því við nánari athugun hafði hann gleymt að fá samsinni ríkisstjórnarinnar fyrir gjöfinni. En það átti að gefa hann iðnrekendum, sem hv. þm. Ágúst Einarsson hneykslast nú mjög á. Hann er meira að segja hneykslaður á að menn sem ekki eru með fagþekkingu eins og atvinnurekendur í iðnaði eigi að fara að sitja í stjórninni. En það lá nú við, það var nærri búið að gefa þeim hann um árið. Þetta er eina afrek kratanna sem ég man eftir við að selja eða koma sjóðunum í einkavæðingu.