Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 17:42:17 (5639)

1997-04-22 17:42:17# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[17:42]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég ætla ekki halda langa ræðu þar sem ég hef tekið ákvörðun um að styðja þetta frv. Ég tel það afar mikilvægt að breytingar náist fram á þessum málaflokki. Þó ég hefði vel getað hugsað mér að einhver annar háttur hefði verið hafður á þá tel ég það svo mikilvægt að breytingar verði á þessu sviði að ég mun styðja frv. þótt ég sé ekki fullkomlega sáttur við allt sem þar kemur fram.

Ég vil hins vegar gera athugasemdir við það sem kemur fram í grg. með áliti 1. minni hluta þar sem um er að ræða að lækka eigið fé hins nýja Fjárfestingarbanka. Það er sjálfsagt álitamál hversu miklu eigin fé slíkur banki þarf á að halda og það fer auðvitað eftir því hlutverki sem honum er ætlað og hvernig honum er ætlað að skila hlutverki sínu og skal ég út af fyrir sig ekki deila um þá útreikninga sem nefndin hefur gert og treysti því að þeir hafi reiknað rétt miðað við það hlutverk sem bankanum er ætlað. En það er hins vegar ráðstöfun þessara fjármuna sem ég geri mikla athugasemd við, þ.e. að ráðstafa fjármununum á þann hátt að dreifa þeim á tiltekna landshluta, það tel ég vera óráðlegt. En þar sem ekki er beinlínis kveðið á um þetta í brtt. með frv. heldur með brtt. við það mál sem næst er á dagskrá þá skal ég ekki lengja þessa umræðu með frekari ræðuhöldum heldur ræða það þegar málefni Nýsköpunarsjóðsins verða á dagskrá, væntanlega síðar á þessum fundi.