Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 17:44:26 (5640)

1997-04-22 17:44:26# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[17:44]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu mál sem ber að með nokkuð sérkennilegum hætti. Það er ekki oft sem það gerist að nefndir klofni, margklofni, vegna stjfrv. en þannig háttar til í þessu tilviki að nefndin er þríklofin og ekki að ástæðulausu því hér er um býsna sérkennilegt mál að ræða, ekki síst í ljósi stefnu ríkisstjórnarinnar og í ljósi þess sem hefur verið að gerast á fjármálamarkaði á undanförnum árum. Frv. sem er til umræðu er hluti af heild sem var til umræðu í gær þegar rætt var um breytingar á lögum um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Hér er svo næsti biti í dæminu og síðar, væntanlega á þessum fundi, verður rætt um Nýsköpunarsjóðinn sem tengist þessu frv.

Frá mínum bæjardyrum séð er sérkennilegt að með annarri hendinni er verið að breyta rótgrónum gömlum bönkum ríkisins í hlutafélagabanka og auðvitað er meiningin með tíð og tíma að þeir fari út á almennan markað eftir ákveðna aðlögun, en með hinni hendinni er verið að stofna nýjan ríkisbanka. Að vísu einnig í hlutafélagsformi en í meirihlutaeign ríkisins og með afar sérstakri stjórn, ekki verður annað sagt, en það á rætur að rekja til sögunnar og þess hvernig þessi banki verður til.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa mjög mörg orð um þá breytingu sem verið er að leggja til. Mér finnst hún alveg fráleit. Það er verið að fara kolvitlausa leið og í raun og veru verið að lengja ferli eða draga á langinn nauðsynlegar breytingar með óþarfa millispili. Ég held að það hefði verið miklu nær að þessir sjóðir hefðu gengið til þeirra banka sem fyrir eru og yrðu hluti af hinu almenna viðskiptakerfi í landinu í stað þess að ríkið sé að stofna nýjan banka sem hafi sérstöku hlutverki að gegna hvað sem það svo stendur lengi og hvernig sem það hlutverk mun þróast. Margir þeirra sem skiluðu inn umsögnum eða komu á fund efh.- og viðskn. spáðu því að þessi banki mundi þróast yfir í venjulegan viðskiptabanka. Hann yrði að keppa á lánamarkaði við aðra banka og mundi færa sig nær þeirri starfsemi eftir því sem lögin sem um hann gilda heimila.

Það hlýtur að vekja margar spurningar hvers vegna ríkisstjórnarflokkarnir ákváðu að fara þessa leið. Það er augljóst að hér er verið að fylgja eftir miklum breytingum sem átt hafa sér stað á fjármagnsmarkaði. Það er verið að stefna að hlutafélagavæðingu banka og lánastofnana. Hvers vegna þá að fara þá leið að stofna nýjan banka? Þessu hef ég velt mikið fyrir mér þó það hafi nú kannski ekki beinlínis valdið mér andvöku --- það er um nóg annað að hugsa þessa mánuðina --- en ég get látið mér detta í hug ýmsar skýringar. Ein skýring er sú sem ég veit að þessi breyting er hluti af því samkomulagi sem gert var bæði milli ríkisstjórnarflokkanna og einnig innan stjórnarflokkanna vegna þess að deildar meiningar voru um hversu langt ætti að ganga í þessum breytingum. Ég spyr mig hvort þessi lausn sé tengd því að menn deili um hverjir eigi þessa sjóði. Þeir sem hafa talað fyrir hönd iðnaðarins halda því fram og hafa skrifað um að t.d. Iðnlánasjóður sé eign iðnaðarins, þeir hafi borgað til hans og hljóti að teljast eigendur hans. Eru það deilur um hver á þessa sjóði og þar af leiðandi hafi menn komist að helmingaskiptasamkomulagi, þeir sem hafa borgað í þessa sjóði fái aðild að stjórninni en ríkið sé með meiri hluta í bankanum? Er þessi breyting tengd valdatafli á fjármálamarkaðnum, ekki síst út frá þeim blokkum sem þar takast á? Er þarna um að ræða spurningu um ítök í atvinnulífinu og ákveðna stýringu á fjármagni til ákveðinna atvinnugreina? Eða er kannski fyrst og fremst um það að ræða að menn séu að halda í þá möguleika að hafa nokkrar vel launaðar stöður til að úthluta til sinna ágætu félaga eins og hefur tíðkast um áratuga skeið? Mér finnst satt að segja illskiljanlegt hvers vegna þessi leið er farin. Hvers vegna menn gengu ekki hreint til verks og aðlöguðu þessa lánastarfsemi að viðskiptabönkunum hvernig sem menn hefðu nú farið að því en þar hefur verið bent á fleiri en eina leið. Eins og komið hefur fram hafa bankarnir í sameiningu boðist til að kaupa sjóðina.

Í þeirri athugun sem fram fór á vegum iðnrh. og fyrirtækið J.P. Morgan annaðist var fyrst og fremst verið að beina sjónum að einni leið. Þeirri leið að stofna nýjan banka. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að öll sú umfjöllun sem átt hefur sér stað um það mál hefur ekki skýrt þetta fyrir mér. Ég hef ekki fengið fullnægjandi svör við því hvers vegna þessi leið var valin og verð því að reyna að ímynda mér hvað þarna liggur að baki. Ég ítreka að mér finnst þetta alls ekki í samræmi við annað sem hefur verið að gerast, hvorki í einkavæðingu annarra fyrirtækja þar sem núv. ríkisstjórn hefur ekki hikað við að gera stórbreytingar á fyrirtæki eins og Pósti og síma, sem hefur skilað miklum hagnaði og lagt mikið til ríkissjóðs og er auðvitað vandmeðfarið fyrirtæki. Þar hikuðu menn ekki við að gera grundvallarbreytingar en þegar kemur að þeim sjóðum sem eru að lána til atvinnulífsins þá er verið að leika einhverja biðleiki í stöðunni. Ég get ekki kallað þetta annað en biðleik í stöðunni því það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að hér er ekki um varanlega lausn að ræða. Ég trúi því ekki að menn ætli sér að hafa þetta form á þegar til lengri tíma er litið. Það væri nú gott að fá það upplýst hjá talsmönnum ríkisstjórnarinnar, og hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, hvað þeir sjá fyrir sér varðandi líftíma þessa banka. Ég á erfitt með að trúa því að menn muni halda fast við þetta form. Það var mjög fróðlegt að sjá og heyra að flestir þeir sem koma að viðskiptalífinu á ýmsan hátt og komu að þessu máli og skiluðu inn umsögnum leggjast gegn því að þessi leið verði farin. Það er ekki bara vegna þess að þeir sjái sér hag í því að komast inn á þennan markað og ná undir sig þeim markaði, heldur fyrst og fremst vegna þess að sú breyting að færa þessa lánastarfsemi til viðskiptabankanna almennt er miklu meiri og betur í takt við þá þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum.

Þá vil ég koma að því, hæstv. forseti, að við erum að ræða um sjóði sem ríkið hefur haft með höndum þó ýmsir hagsmunaaðilar hafi komið að stjórnun þeirra. Þessir sjóðir eiga sér sumir hverjir býsna langa sögu. Mér tókst að fá upplýst áðan að Fiskveiðasjóður Íslands var stofnaður 10. nóv. 1905. Við erum því að fjalla um gamla sjóði. Hinir sjóðirnir eru miklu yngri þótt þeir séu komnir nokkuð til ára sinna, eins og t.d. Iðnþróunarsjóður sem ég held að sé stofnaður 1970. Alla vega er hann byggður á lögum frá 1970 en hinir sjóðirnir eru yngri að því er ég best veit. En við erum að tala um býsna langan feril og sjóði sem urðu til við allt aðrar aðstæður en nú ríkja. Þegar ríkisvaldið leit á það sem sitt hlutverk að styðja og styrkja atvinnulífið, eins og það gerir svo sem enn og grípur inn í þegar illa árar. Þetta er frá þeim tíma allt aftur til ársins 1905 og ég vek athygli á að þetta er á mjög svipuðum tíma og Íslandsbanki var stofnaður eða var að fara af stað. Ef ég man rétt tók hann til starfa 1905 þó hann hafi verið stofnaður 1904. Þarna var um það að ræða að menn voru að útvega lánsfé sem var til skamms tíma af mjög skornum skammti. Ástæðan fyrir því að menn eru núna að ráðast í breytingar er auðvitað sú að ástandið á lánamarkaðnum er orðið allt annað. Því er haldið fram af þeim sem best til þekkja í viðskiptakerfinu að enginn skortur sé á lánsfjármagni hvort sem við lítum til sjávarútvegs eða iðnaðar, þá sé ekkert vandamál að útvega lánsfé og menn leiti til ýmissa aðila bæði innan lands og erlendis eftir slíkum lánum. Þannig að það er mjög eðlilegt að mínum dómi og löngu tímabært að ráðast í uppstokkun á þessum sjóðum, en enn og aftur lýsi ég því yfir að ég er mjög ósátt við þá leið sem hér er farin. Hún er illskiljanleg.

Við vinnu í nefndinni og í þeim útreikningum sem þar voru lagðir fram kom í ljós að eignarstaða þessara sjóða var býsna sterk og því er það að 1. minni hluti gerir þá tillögu að 1 milljarður kr. til viðbótar verði færður yfir til Nýsköpunarsjóðsins í þeim tilgangi fyrst og fremst að styrkja atvinnulíf á landsbyggðinni. Þetta er ekki nánar útfært með neinum hætti í tillögum 1. minni hluta. Ég set ákveðið spurningarmerki við það að vera að binda þetta fé með því að skilyrða að 1 milljarður skuli fara út á land. Ég vil enn einu sinni minna á að þrátt fyrir allar aðgerðir ríkisstjórna, allt frá aldamótum svo að segja, þ.e. þessi umræða um hvernig væri hægt að stöðva flutning fólks frá landsbyggðinni til þéttbýlisins og fyrst og fremst til höfuðborgarsvæðisins hefur staðið, svo áratugum skiptir og hefur verið gripið til ýmissa aðgerða en það hefur ekki breytt þessari þróun. Það er ósköp einfaldlega vegna þess að þar eru margvíslegir kraftar að verki. Það er ekki bara atvinnan sem þar ræður heldur margt annað. Þess vegna ef menn ætla sér að styrkja stöðu landsbyggðarinnar, og auðvitað þurfa íbúar landsins að standa sem jafnast að vígi, þá þurfi svo margt og miklu meira að koma til en 1 milljarður. Og ef horft er á það hlutverk að styðja við nýsköpun, þá á fyrst og fremst að meta verkefnin. Það á fyrst og fremst að meta þær hugmyndir sem verið er að koma fram með og veita fjármagn í góðar hugmyndir, ný, spennandi og kröftug fyrirtæki í stað þess að vera að binda þetta með þessu móti. Ég er mjög lítið hrifin af þessu, það verð ég að segja. Það er auðvitað verið að vísa til þess að fram undan eru töluverðar framkvæmdir á suðvesturhorni landsins. Þær eru að sjálfsögðu tímabundnar og ná til ákveðins hluta fólks. Þetta eru fyrst og fremst verklegar framkvæmdir þar sem karlmenn verða í yfirgnæfandi meiri hluta þeirra sem þar fá vinnu. Það má benda á að atvinnuleysi er nú einna mest á suðvesturhorninu og það er meira meðal kvenna en karla.

[18:00]

Menn þurfa því aðeins að hugsa hvað þeir eru að segja og gera þegar verið er að tala um að veita peninga í atvinnusköpun og nýsköpun. Það á auðvitað að reyna að beina þeim þangað sem þörfin er. Það er þörfin sem á fyrst og fremst að ráða, ekki einhverjar hugmyndir eða draumar um að það takist að snúa við áratugaþróun sem, eins og ég sagði, á sér svo margvíslegar orsakir og rætur bæði í atvinnuháttum, menningu, menntun, heilsugæslu o.s.frv. Sem síðar kemur að þeirri spurningu hvað við ráðum við í þessu litla samfélagi og hvernig skynsamlegast er að dreifa því fjármagni sem við höfum yfir að ráða.

Aðeins nokkur atriði til viðbótar sem ég ætla að koma inn á, hæstv. forseti. Ég ætla að ítreka það að samkvæmt öllu því sem fram hefur komið er það bankakerfi sem er starfandi, þó að til kæmi breyting á Landsbankanum og Búnaðarbankanum, þá er þetta bankakerfi fullkomlega í stakk búið til að sinna því verkefni að taka við þessari lánastarfsemi sem títtnefndir sjóðir hafa sinnt. Það er því ekki vandinn. En eins og ég nefndi áðan eru þarna einhverjar aðrar ástæður að baki og það beinir sjónum okkar að stjórn bankans og þeim atriðum sem stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt í þessu máli og reyndar líka varðandi Landsbankann og Búnaðarbankann. Hér er að vísu kveðið á um hversu margir skuli sitja í stjórn en það er ekki síst samsetning stjórnarinnar sem ég vil gera athugasemd við. Ef meiningin væri sú að hér yrði almennur og sterkur fjárfestingarbanki sem hefði það hlutverk að efla og stýra fjárfestingu í atvinnulífinu þá ættu fyrst og fremst þeir að koma þar að verki sem hafa faglega þekkingu og yfirsýn á þeim málum. En hér er fyrst og fremst verið að byggja á sögunni og því hvaðan þessir sjóðir koma. Það er ekki verið að hugsa um atvinnulífið í heild eða framtíðina og nýsköpunina eða hvert þurfi helst að beina fjármagninu heldur eiga þessir fulltrúar að koma frá iðnaðinum og sjávarútveginum. Þeir eiga að koma þaðan. Á þeim grunni er byggt. Ég hefði talið, eins og ég var að nefna, að það hefði verið miklu skynsamlegra að hafa þarna breiðari stjórn sem hefði yfirsýn yfir atvinnulífið.

Varðandi bankastjóra þá kemur ekkert fram um hversu margir þeir eiga að vera. Þar vil ég ítreka þau sjónarmið að ég tel að eingöngu eigi að vera einn bankastjóri en hingað til hefur ekki fengist upplýst hver meiningin er, hvað ríkisstjórnarflokkarnir hugsa sér varðandi stjórn þessa nýja ríkisbanka.

Það er gert ráð fyrir því að heimilt verði að selja allt að 49% hlutafjár í Fjárfestingarbankanum og er svo sem ekkert við því að segja. Það er stefnan að bankinn verði alla vega um sinn í eigu ríkisins og ég tel að ef menn fara þessa leið á annað borð sé eðlilegt að hafa ákveðinn aðlögunartíma. Það sem skiptir miklu máli er hvernig þessi 49% eru seld, hvernig þau fara og hvert þau fara og hvort þau verða til þess að ýta enn þá meira undir þá eigna- og valdaþjöppun sem er svo greinileg í íslensku atvinnu- og fjármálalífi eða hvort menn fara þá leið að reyna að tryggja dreifða eignaraðild. Það er ekki nóg að vera með einhverjar viljayfirlýsingar í greinargerðum frumvarpa um það, það verður og á að kveða á um það í lögum eins og t.d. var gert þegar verið var að selja hlut ríkisins í Lyfjaverslun ríkisins. Þá var kveðið á um það í lögum að sú eignaraðild skyldi vera dreifð þannig að hún tryggði ákveðna samkeppni. Mér finnst þetta vera mikilvægt atriði í þessu máli. En það er ekkert kveðið á um það hér.

Hvað varðar önnur atriði frv. þá er allt svona hefðbundið og í samræmi við það sem gert er í öðrum frv. Ég fæ ekki betur séð en að réttindi starfsfólks séu tryggð með eðlilegum hætti nema að því leytinu að hér, eins og í öðrum frv. sem hér liggja fyrir, er hvergi komið inn á aðild starfsmanna að stjórn þessara banka eða aðild að því hvernig þessar breytingar verða undirbúnar og hvernig að þeim verður staðið. Ég gef mér þá að sú yfirlýsing sem hæstv. viðskrh. gaf hér í dag um að fulltrúar starfsmannafélaga Landsbankans og Búnaðarbankans muni fá að fylgjast með þeim breytingum sem þar eru fyrirhugaðar nái einnig til þessa máls hér. (Gripið fram í: Það er engin svona nefnd þar.) Nei, það er engin svona nefnd en það er mjög eðlilegt að starfsmenn fái að fylgjast með þessum breytingum og ég hvet hæstv. viðskrh. til að sjá til þess að starfsmennirnir fái að fylgjast þarna glöggt með. Því þarna er verið að gera ákveðnar breytingar og það er ljóst og kom fram í umfjöllun um málið að ekki verður hægt að tryggja öllum starfsmönnum sömu störf. Það er um töluverðar breytingar að ræða og munur á því að vera starfandi sjóður eða að vera orðinn banki. Reyndar er gert ráð fyrir því að þeir sem ekki fá vinnu hjá Fjárfestingarbankanum flytjist yfir til Nýsköpunarsjóðsins og var það reyndar atriði sem var nokkuð gagnrýnt eða spurt mikið um í umræðunni.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég er á móti þeirri leið sem hér er valin. Ég hefði talið, eins og ég hef margítrekað, skynsamlegra að ganga hreint til verks og koma þessum sjóðum inn í viðskiptabankana þannig að öll þessi lánastarfsemi yrði þar hvernig sem að því hefði verið staðið. Þar hefur verið bent á ýmsar leiðir en þetta millispil eða biðleikur í stöðunni, sem á einhvern hátt tengist valdahlutföllum og samskiptum og samningum ríkisstjórnarflokkanna, er mér ekki að skapi og því get ég ekki greitt þessu frv. atkvæði mitt.