Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 18:08:28 (5641)

1997-04-22 18:08:28# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[18:08]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það eru að verða nokkuð fastir liðir í þinginu að í upphafi umræðna um stjórnarfrumvörp kveðja sér gjarnan hljóðs hver á fætur öðrum ýmsir talsmenn Sjálfstfl. og þeir eru yfirleitt á móti málunum í 1. umr. Mig minnir að hæstv. fjmrh. hafi fundið upp þá formúlu að þeir sem ekki tala séu með málinu en þeir sem tali séu yfirleitt á móti því. Og það hefur verið tilfellið með Sjálfstfl. í vetur, t.d. í Landsvirkjunarmálinu og eins í þessu máli, hlutafélagavæðingarmálinu, að þeir eru alltaf á móti málinu við 1. umr. Það koma gjarnan miklar fréttir um það í fjölmiðlum að meiri hlutinn í efh.- og viðskn. sé a.m.k. þríklofinn. Það er búið að segja þessa frétt aftur og aftur og taka viðtöl í bak og fyrir í öllum fjölmiðlum landsins við hv. 16. þm. Reykv. sem er ævinlega á móti málum til að byrja með og telur þeim allt til foráttu, þau séu svo vitlaus að vonandi gefi guð að það gerist ekki að löggjafarvaldið fari að minnka sig á því að samþykkja þessa endileysu sem hv. þm. rekur skilmerkilega í viðtölum við fjölmiðla. Eins er það með hv. 3. þm. Vestf. Hann veður mikinn við 1. umr. mála --- og gengur hann nú í salinn sem betur fer enda á ég eftir að varpa á hann nokkrum orðum. Þetta er að verða nokkuð sérkennilegt og athyglisvert einkenni á Sjálfstfl. að hann er á móti stjfrv. við 1. umr. en með þeim við 2. umr. (Gripið fram í: Hver?) Sjálfstfl. og talsmenn hans, en þó breytast málin yfirleitt ekki neitt hvort sem það er Landsvirkjun eða bankahlutafélagavæðingin eða Fjárfestingarbankinn, málin breytast ekkert milli umræðna en vissir þingmenn Sjálfstfl., aðallega í efh.- og viðskn. eru á móti þeim í 1. umr. en með þeim í 2. umr. og gjarnan talsmenn þeirra. (Gripið fram í: Nefndu dæmi.) Ég get nefnt mörg dæmi um það eins og er að koma fram í þessu máli og er að koma fram í bankamálinu og kom fram í Landsvirkjunarmálinu. Ég get nefnt þessi dæmi og það ætti að vera nóg fyrir hv. þm. Með öðrum orðum er ekki orð að marka það sem þeir segja við 1. umr. vegna þess að þeir gleypa það allt við 2. og 3. umr. Átakanlegastur gleypugangur af þessu tagi er þó hjá hv. þm. Gunnlaugi Sigmundssyni sem af einhverjum ástæðum hefur kosið að taka sér leyfi frá störfum meðan verið er að greiða atkvæði um þessi mál hér. (Gripið fram í: Hann er ekki í Sjálfstfl.) Hann er ekki í Sjálfstfl. --- hver sagði það? (Gripið fram í: Ja, hver veit það?) Já, glöggur er hæstv. viðskrh., hann er nefnilega ekki í Sjálfstfl., hann er í Framsfl. Og mér sýnist að hann hafi kostað milljarð. Hann hafi lagt sig á milljarð í meðferð þessara mála. Miðað við þann efnahag sem sá hv. þm. hefur tamið sér þá eru það út af fyrir sig engin tíðindi að hann skuli leggja sig á hærri upphæðir en við vesalingarnir hérna í þessari stofnun. Veruleikinn er þess vegna sá að það er að verða alveg ótrúlega mikil gengisfelling á orðum þessara þingmanna. Það verður bið á því að nokkur maður hér taki mark á þeim vegna þess að hlutirnir liggja þannig að enginn telur ástæðu til þess. Þeir gera það greinilega ekki einu sinni sjálfir. Enda er það að verða þannig, herra forseti, í þessari stofnun að maður veltir því fyrir sér til hvers umræðan oft á tíðum er. Við sjáum hér í salnum yfirleitt heldur fáa menn, við vitum að það eru vélar sem hlusta og svo er þetta skrifað niður og gefið út í þingtíðindum, við vitum um það. En að maður hafi það á tilfinningunni að það sé gert eitthvað efnislega með það sem fram fer hér í umræðum verður minna og minna. Og ég segi alveg eins og er að ég hef miklar áhyggjur af því hvernig svipurinn er að verða á þinginu að þessu leytinu til og staða þingsins vegna þess að það sem menn leggja hér til er í alvöru meint, þeir vilja koma góðu til leiðar og breyta málum. Ég held að Alþingi þurfi að skoða sinn gang mjög vel í þessum efnum vegna þess að það er ótrúlega lítið gert með umræðuna. Það er ekki aðeins í sambandi við 1. umr. hjá talsmönnum Sjálfstfl. og svo hv. þm. Gunnlaugi Sigmundssyni sem er, eins og fram hefur komið í umræðunum, í Framsfl., heldur á það einnig við um okkur stjórnarandstæðinga að stundum virðist það fara fyrir lítið sem við erum að segja.

Ég vil í þessu samhengi sérstaklega rifja það upp að við 1. umr. þessa máls gerði ég mjög alvarlegar stjórnkerfisathugasemdir við þetta frv. Og ég ætla að endurtaka þær og skýra frá því að ég óska eftir því að hv. efh.- og viðskn. fari sérstaklega yfir þær athugasemdir því þetta frv. er þannig að það er farin allt önnur leið varðandi stjórnkerfið en við höfum nokkru sinni áður séð. Nú er ég ekki að segja að þetta þurfi alltaf að vera í samræmi við stjórnarráðslögin frá 1960, sem voru sett að frumkvæði Bjarna Benediktssonar og í raun og veru skrifuð af honum, sem byggjast á því grundvallaratriði að hver ráðherra sé sjálfstætt stjórnvald út af fyrir sig og ég held að sé að mörgu leyti farsælt kerfi vegna þess að það verður til þess að ábyrgð ráðherrans er skýr, ábyrgð hans gagnvart Alþingi er skýr og hann getur ekki skotið sér á bak við aðra ráðherra. Þess eru dæmi eins og kunnugt er að menn hafa kannað viðhorf, t.d. við ríkisstjórnarborð, til ýmissa mála og sumir segja jafnvel að þar sé látið ganga atkvæði. Staðreyndin er sú að atkvæðagreiðsla við ríkisstjórnarborð er markleysa samkvæmt stjórnarskránni. Sá sem hefur ábyrgð við ríkisstjórnarborð er hver ráðherra fyrir sig en síðan hópurinn sem pólitískur selskapur. Og af hverju segi ég þetta hér, herra forseti? Það er vegna þess að þetta frv., ef það verður að lögum, er sett undir tvo ráðherra og það er óvenjulegt að búið sé til félag ráðherra með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Ef til vil kunna að vera dæmi um það, ég hygg t.d. að í lögunum um málefni fatlaðra eins og þau voru sett í upphafi hafi ekki verið að öllu leyti ólík hugsun -- og þó. Munurinn er kannski sá að hér er um það að ræða að menn eru með í höndunum, ef svo mætti segja, fleiri, fleiri milljarða króna í peningum sem menn eru hér að fara með samkvæmt frv. eins og það lítur hér út og eftir innihaldi þess. Þá er málið svona, herra forseti. Í fyrsta lagi stendur í 1. gr., með leyfi forseta:

[18:15]

,,Viðskiptaráðherra annast undirbúning að stofnun fjárfestingarbankans og fer með framkvæmd laga þessara.``

Hann fer með framkvæmd laganna. Hann sér sem sagt um að lögin séu forvöltuð með þeim hætti sem kveður á um í lögunum. Hann á að láta sína embættismenn fylgjast með því að haldnir séu fundir í samræmi við þetta, gefnir séu út reikningar og annað gert í samræmi við lögin. Þetta er það sem viðskrh. á að gera. Síðan segir í 5. gr., með leyfi forseta:

,,Sjávarútvegsráðherra og iðnaðarráðherra fara saman með eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.``

Þetta er afar óvenjulegt. Nú er ég ekki að segja að þetta sé útilokað mál í sjálfu sér. En ég vil að þingið geri sér grein fyrir því að hér er verið að fara inn á algjörlega nýja braut. Ég efast um að þingið hafi gert sér grein fyrir því sem skyldi og þess vegna mun ég óska eftir að efh.- og viðskn. fái lögfræðilegt mat á þessum hlutum. Venjan er sú, eins og fram kom í atkvæðagreiðslu um bankanna í dag að fjmrh. fer með hlut ríkisins. Það er venjan. Þó er það þannig að iðn.- og viðskrh., sem eru tveir ráðherrar í einum og sama manningum og hafa verið þannig nokkuð lengi, fer orðið með hlut ríkisins í geysimörgum fyrirtækjum og fjármálastofnunum. Er það þannig með okkur hér að við séum þeirrar skoðunar að þetta sé eðlilegt? Eða teljum við að þessu þurfi að breyta? Alla vega finnst mér að menn þurfi að gera sér grein fyrir því þegar þeir eru að gera tillögu um að iðn.- og viðskrh. fái þessi gríðarlegu völd í hverju málinu á fætur öðru. Hér er auk þess lagt til að það verði sjútvrh. --- þeir verði tveir. Skyldi það vera vegna þess, herra forseti, að annar er iðnrh. og hinn er sjútvrh.? Eða skyldi það vera vegna þess að annar er í Framsfl. og hinn er í Sjálfstfl.? Er það kannski dásamleg tilviljun að þeir eru í sitt hvorum stjórnmálaflokknum, eins og stundum var sagt um sannanirnar fyrir framhaldslífi hér áður. Er þetta ekki undursamleg sönnun fyrir framhaldslífi tvíveldis þessara tveggja flokka? Annar er sjútvrh. sem á að stjórna og hinn iðnrh. og annar er í Framsókn og hinn hjá íhaldinu. Hallelúja. Amen, sagði hv. 3. þm. Vestf. Ég hef ekki umboð til að segja amen hér.

Síðan segir í 5. gr., með leyfi forseta:

,,Með atkvæði fyrir hönd ríkissjóðs á aðalfundi og öðrum hluthafafundum í fjárfestingarbankanum fer ...`` --- hver? Hver fer með atkvæðið fyrir hönd ríkissjóðs? Er það fjmrh.? Er það hv. þm. Gunnlaugur Sigmundsson? Eða hver er það? Nei. Það er hvorki viðskrh. né sjútvrh. Hver er það? Það er nefnd sem fer með atkvæðið fyrir hönd ríkisins. Skyldi það kannski vera vegna þess að þeir hafi átt erfitt með að koma sér saman um þetta öðruvísi en að búa til nefnd þar sem væri slatti af framsóknarmönnum og slatti af sjálfstæðismönnum til að greiða atkvæði? Hverjir eru í þessari nefnd? Það hljómar svo, með leyfi forseta:

,,Með atkvæði fyrir hönd ríkissjóðs á aðalfundi og öðrum hluthafafundum í fjárfestingarbankanum fer fimm manna nefnd. Þar af skulu tveir menn skipaðir af iðnaðarráðherra, annar eftir ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í iðnaði, og tveir skulu skipaðir af sjávarútvegsráðherra, annar eftir ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi. Iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra skipa einn mann sameiginlega.``

Þetta eru sem sagt tveir fyrir mig og tveir fyrir þig og svo hálfur fyrir hvorn, helmingaskiptastjórnin. Það eru tveir fyrir mig og tveir fyrir þig og svo hálfur fyrir hvorn. Þá ætla ég að spyrja þessa ráðherra að því, af því að þeir eru hér báðir. Hvernig hugsa þeir sér að framkvæma þetta nákvæmlega? Það stendur hér:

,,... skipaðir af iðnaðarráðherra, annar eftir ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í iðnaði, og tveir skulu skipaðir af sjávarútvegsráðherra, annar eftir ábendingum samtaka atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi.``

Hvað þýðir þetta? Í mörgum lögum stendur samkvæmt eða að fenginni tillögu, en hvað þýðir þetta nákvæmlega? Ég held að það sé óhjákvæmilegt að fá þetta skýrt í þessari umræðu. Það er a.m.k. óhjákvæmilegt að þingið geri sér grein fyrir því að hér er verið að gera tillögu um stjórnkerfi sem er þvert á anda stjórnarráðslaganna. Það getur vel verið að menn séu komnir að þeirri niðurstöðu að það eigi að breyta þeim. Eða það getur líka verið að menn séu komnir að þeirri niðurstöðu að þau séu ófullkomin og þrátt fyrir þau eigi þetta að vera svona. En þá á að horfast í augu við hlutinn eins og hann er, að það er verið að gera tillögu um grundvallarbreytingu frá því sem tíðkast hefur samkvæmt stjórnarráðslögunum. Með öðrum orðum, herra forseti, er þetta á þremur þrepum. Það er í fyrsta lagi:

Viðskiptaráðherra annast undirbúning að stofnun fjárfestingarbankans og fer með framkvæmd laga þessara.

Annað þrepið er: Sjávarútvegsráðherra og iðnaðarráðherra fara saman með eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

Þrep þrjú er: Nefnd fer með atkvæði ríkissjóðs.

Ég tók eftir því, herra forseti, áðan að einhver var að ráðast á þingmenn Alþfl. fyrir að þeir hefðu verið lengi með viðskrn. og iðnrn. og það hefði lítið gengið í þessu máli. Svo hafi komið þessir frelsandi englar sem þar eru núna frá Framsfl. og Sjálfstfl. Hver er veruleikinn í þessu máli? Staðreyndin er sú að hæstv. núv. iðn.- og viðskrh. hefur ekkert leyst í þessu máli. Hann hefur bara búið til stjórnkerfi sem hentar helmingaskiptahópunum. Málið er ekki leyst að neinu leyti. En af því að þeir eru þarna báðir, sitja auk þess hlið við hlið þessir ágætu menn, mér á hægri hönd, þá er búið til kerfi sem hentar klíkuveldi helmingaskiptaflokkanna. Svo einfalt er það. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gengur undir þessu --- maðurinn sem er stundum að tala um að skera þurfi niður milliliðakostnaðinn og vaxtakostnaðinn í þjóðfélaginu til að bæta lífskjörin. Hann ætlar að halda uppi vaxtakostnaðinum hér um mörghundruð milljónir kr. á ári næstu árin og leggja það á atvinnufyrirtæki og alþýðu þessa lands í þágu klíkuveldis helmingaskiptaflokkanna. Eða hvað annað er á bak við þetta?

Ég spurði hv. þm. Pétur H. Blöndal að því í dag hvernig hv. þm. skildi það að svona er farið í málið. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði: ,,Spurðu hina.`` Ég geri það líka. Ég spyr hv. þm. Einar Odd Kristjánsson: Af hverju er hann að láta þetta ganga yfir sig? (EOK: Það kemur að mér.) Af hverju er hann að taka þátt í að leggja á þjóðina 300--400 millj. kr. skatt hér og milljarð í bönkunum eins og ég mun rekja hér nánar á eftir? Hvað er það? Hvað er það sem hrekur góða drengi úr Önundarfirði til að láta svona ósköp yfir sig ganga?

Herra forseti. Eftir þennan stjórnkerfisþátt vík ég næst að vaxtamuninum. Í greinargerð hv. 16. þm. Reykv., Péturs H. Blöndals, kemur fram hver er vaxtamunurinn í Verslunarlánasjóðnum. Hann er 1,4%. Það kemur líka fram í sömu greinargerð að vaxtamunurinn í Iðnlánasjóði er 1,88%. Munurinn er hvorki meiri né minni en 0,48%. Þetta er verulegur munur. Hver gæti þessi munur verið í peningum ef hann væri færður yfir á Iðnþróunarsjóð, Iðnlánasjóð og Fiskveiðasjóð? Hvað höfðu þessir þrír sjóðir í vaxtatekjur á árinu 1995? Þeir höfðu 1.250 millj. kr., hvorki meira né minna. Þetta eru engar smásjoppur. Á annan milljarð í vaxtatekjur. Niðurstaðan er sú að í raun og veru sé vaxtamunurinn sem þessir sjóðir eru að taka umfram Verslunarlánasjóðinn 300--400 millj. kr. Þá er ég kominn að þessari tölu. Hvernig stendur á því að hv. þm. eins og hv. 3. þm. Vestf. láta það yfir sig ganga að leggja aukalega á atvinnuvegina 300--400 millj. kr. í vaxtamun frekar en að fara þá leið sem allir virðast vera sammála um, að skynsamlegra væri að setja þessa sjóði inn í bankana? Ég heyri ekki að það sé í rauninni nokkur ágreiningur um það mál í þessum sal þegar upp er staðið. Ég heyri það ekki. Ég heyri ekki betur en að stjórnarandstöðuflokkarnir séu sammála um það, eða mér heyrist það, og vísa ég þá m.a. til ræðu hv. 14. þm. Reykv. nú áðan. Ég heyri ekki betur en að flestallir þingmenn Sjálfstfl. séu sammála þessu, er það ekki? Þingmenn Framsfl. töluðu hérna við 1. umr. og síðan hefur lítið til þeirra spurst. Þeir fóru í frí af einhverjum ástæðum.

Veruleikinn er sá, nákvæmlega eins og í sambandi við hlutafélagavæðinguna, að menn eru að velja hér dýra leið. Það má færa að því rök að það hefði verið hægt að ná kostnaðinum niður um 1,5 milljarða kr. í þessum frv. samanlögðum ef menn hefðu valið ódýrustu leiðina. Það er verið að leggja skatt á þjóðina upp á 1,5 milljarða kr. á ári af því að menn þora ekki að gera það sem þarf að gera. Þetta er hörmuleg niðurstaða, verð ég að segja. Það er til vansa að menn skuli ekki sýna meiri kjark en fram kemur með þessum hætti. (Gripið fram í: Málið er svo viðkvæmt.) Málið er svo viðkvæmt. Það eru stólar og stöður í húfi sem þarf að taka tillit til eða hvað. Hér sitja tveir höfðingjar mér á hægri hönd t.d. Þarf annar þeirra stól? Þeir eru í ágætum stólum núna. Þurfa þeir aðra stóla? (Gripið fram í: Kannski ekki þeir.) Kannski ekki þeir en einhverjir aðrir eða hvað? Það skyldi þó aldrei vera. Það skyldi þó ekki vera að þetta ætti að heita frv. til laga um stól handa fráfarandi ráðherra. (Gripið fram í.) Frv. til laga um stól handa væntanlegum fyrrv. ráðherra. Það gæti verið að það væri erindið sem hv. 3. þm. Vestf. átti inn á Alþingi, að koma stól undir einhvern vin sinn af þessu tagi. (Gripið fram í.) Það efast ég um. Ekki gagnvart þeim sem þurfa að borga stólinn undir hann. (ÖS: Hver er besti vinur hans í þessum sölum?) Það er nefnilega spurningin, hæstv. forseti, og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem er örugglega á mælendaskrá fljótlega til að reyna að velta þessari spurningu fyrir sér.

Herra forseti. Svo er þetta mál þannig vaxið að allir eru óánægðir með það. Allir. Þá ætla ég að auglýsa eftir manni, ekki hv. þm. Gunnlaugi Sigmundssyni, því hann er með forföll, ég ætla að auglýsa eftir manni sem heitir Davíð Oddsson, hæstv. forsrh. Hvar er hann? Hann hefur ekki sést hér í háa herrans tíð. Hvar er hann staddur, pólitískur leiðtogi stjórnarinnar sem tekur það á sig að matreiða þetta fyrir Alþingi Íslendinga? Hvar er hann? Hvaða rök hefur hann pólitískt fyrir því að gera það? Að ganga á móti, m.a. eftirtöldum aðilum: Í fyrsta lagi samanlögðum Búnaðarbankanum, Landsbankanum og sparisjóðunum sem buðust til að kaupa fyrirbærið. Í öðru lagi Íslandsbanka sem segir: Hér er á ferðinni stofnun nýs banka. Í þriðja lagi Sambands ísl. viðskiptabanka sem leggur til að frv. verði lagt til hliðar. Þetta eru allt orðréttar tilvitnanir. Í fjórða lagi Samband ísl. sparisjóða sem mælir eindregið gegn frv. ,,Sú leið sem farin er í frumvarpinu``, segir Samband ísl. sparisjóða ,,er lökust þeirra sem til álita hafa komið.`` Hver segir þetta fyrir hönd Sambands ísl. sparisjóða? Sigurður Hafstein, sem var um hríð framkvæmdastjóri Sjálfstfl.l ef ég man rétt. Í fimmta lagi leggst Verslunarráð Íslands gegn þessu og segir: ,,Það er verið að stofna nýjan ríkisbanka.`` Í sjötta lagi Samband ísl. tryggingafélaga sem segir: ,,Ríkissjóður er að eignast þriðja bankann.`` Í sjöunda lagi Eignarhaldsfélagið Hof sem segir: ,,Hér er verið að koma á fót óþarfa stofnun.``

[18:30]

Ég tek það fram, herra forseti, ég er ekki í öllum tilvikum sammála þessum aðilum enda skiptir það ekki öllu máli. Þó get ég reyndar tekið undir með þeim flestum, ég segi það alveg eins og er. En ég spyr mig að því: Hvað fær formann Sjálfstfl. til að ganga yfir alla sína nánustu ráðgjafa og bandamenn í Sjálfstfl. í þessu frv. eins og hér er gert? Hvað er á bak við þetta frv. sem gerir það að verkum að formaður Sjálfstfl. telur að honum sé ekki einasta rétt heldur líka skylt að slá pólitíska skjaldborg um mál af þessu tagi? Og svona höfðingjar eins og hv. 2. þm. Reykn., Árni M. Mathiesen, hélt ræðu í þessu máli áðan. (Gripið fram í: Það var varla ræða.) Það var nefnilega varla ræða, það var eitthvert átakanlegasta, með leyfi forseta, tíst sem heyrst hefur í sögu Alþingi. Hvað er það sem gerir það að verkum að þróttmiklir, ungir, efnilegir forustumenn Sjálfstfl. þora ekki að tala? Hvað er það sem gerir það að verkum að forsrh. landsins leggur nafn sitt við þetta? Hvernig stendur á þessu, herra forseti? Og ég segi, og tek það fram við hæstv. forseta, að ég óska hér með formlega eftir því að 3. umr. um þetta mál verði ekki lokið öðruvísi en að forsrh. verði hér í salnum. Því það er algerlega óhjákvæmilegt að sá maður sem tekur á sig að bera ábyrgð á þessu eins og það er þori að kannast við það. En það hefur hann ekki gert til þessa. Hefur verið í útlöndum og er núna á Akureyri og kemst ekki til fundar. Hann verður líka að svara fyrir þetta mál vegna þess að þetta er pólitískt verkefni ríkisstjórnarinnar allrar sem hér er verið að fjalla um.

Það eru tveir aðilar sem segja já við þessu frv. af hagsmunaaðilum. Ég óska hæstv. viðskrh. til hamingju með það. Það er LÍÚ, Kristján Ragnarsson, og Vinnuveitendasambandið, Þórarinn Viðar Þórarinsson. Að öðru leyti er menn mjög gagnrýnir á þetta og reyndar á móti því. Að vísu eru þessir aðilar báðir með ákveðna gagnrýni í þessu efni. En í það heila tekið er andstaða allra þessara aðila við málið og reyndar fleiri ef farið væri í allar umsagnir málsins.

Herra forseti. Ég hef tíundað það hér að í fyrsta lagi stríðir þetta frv. gegn grundvallaratriðum í stjórnarráðslögum landsins. Í öðru lagi hef ég sýnt fram á að það hefur í för með sér stóraukinn kostnað fyrir atvinnulífið í landinu, upp á 300--500 millj. kr. Og í þriðja lagi hef ég spurt mig þeirrar spurningar hvað fær forustu Sjálfstfl. til að hunsa ráð allra þessara aðila með þeim hætti sem gerist í þessu frv. og ég vitnaði til áðan, og fram kemur í nál. hv. þm. Péturs H. Blöndals og hv. þm. Gunnlaugs M. Sigmundssonar.

Í framhaldi af þessum þremur efnisþáttum, herra forseti, ætla ég að spyrja hæstv. viðskrh. einnar eða tveggja spurninga. Ein er þessi: Hversu langt á þessi banki að ganga í almennri bankastarfsemi? Er það ekki greinilegt að þessi banki hlýtur að sinna almennum bankaviðskiptum fyrirtækja að einhverju marki? Í skýrslu J.P. Morgans er bent á að nauðsynlegt sé, ef þessi leið er farin, að þessi banki sinni einhverri almennri viðskiptabankaþjónustu. Ef hann gerir það þá tæki hann þessa viðskiptabankaþjónustu frá öðrum bönkum sem eru til í landinu. Er það meiningin? Hvaða skoðun hefur hæstv. viðskrh. á því?

Önnur spurning sem ég ætla að leggja fyrir hæstv. viðskrh. og hæstv. sjútvrh., sem ég þakka fyrir að vera hér líka: Er á bak við þetta frv. samningur á milli stjórnarflokkanna um það hvernig þeir ætli sér að deila völdum að því er varðar stjórn þessa fyrirtækis í einstökum atriðum umfram það sem sést í textanum? Gera þeir ráð fyrir því að þarna verði stjórnmálamenn settir sem forstjórar eða bankastjórar? Hvernig hafa þeir hugsað sér að taka á þessu máli að því er varðar æðstu stjórn Fjárfestingarbankans? Gera þeir ráð fyrir því að það verði bankinn sem taki við pólitíkusum vegna þess að hinir bankarnir geri það síður eftir að þeir eru orðnir hlutafélagavæddir? Eða hvernig hafa þeir hugsað sér að taka á þessu máli? Og ég endurtek: Liggja einhverjir samningar fyrir á milli stjórnarflokkanna um þessi mál sem þeir hafa ekki sagt frá? Ég vil gjarnan fá skýr svör við þeirri spurningu, sérstaklega ef þörf verður fyrir það síðar að taka þá upp í þessu prófi.

Að lokum þetta, herra forseti. Það hefur verið talað um nauðsyn þess að starfsmenn fái að fylgjast með þessum málum. Ég heyrði ekki hvaða formúlu hæstv. ráðherra hafði í þeim efnum í frammíkalli við hv. 14. þm. Reykv. áðan en ég vildi gjarnan inna eftir því hvað hann hugsar sér í þeim efnum.

Ég endurtek svo að lokum, herra forseti, að í fyrsta lagi mun ég óska eftir því að fram fari lögfræðileg úttekt á stjórnkerfi Fjárfestingarbankans áður en málið verður að lögum. Í öðru lagi óska ég eftir því að hæstv. forsrh. verði viðstaddur umræðuna um þetta mál, í síðasta lagi áður en 3. umr. lýkur þannig að hægt sé að leggja fyrir hann pólitískar spurningar sem tengjast þessu máli.