Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Þriðjudaginn 22. apríl 1997, kl. 18:50:16 (5649)

1997-04-22 18:50:16# 121. lþ. 109.21 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., Frsm. 1. minni hluta EOK
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[18:50]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Það kennir ýmissa grasa við yfirferð þessa fjárfestingarbankamáls. Átti ég nú síst von á því að heyra ræðu líkt og hjá síðasta hv. ræðumanni, sem ég held að þýskir mundu nú hafa sagt að væri í ætt við þann gamla. En hvað um það. Við skulum aðeins fara yfir umræðuna og reyna að fara nokkrum orðum um það sem helst hefur komið fram.

Ég hef veitt því athygli að tveir miklir boðberar sósíalismans hér á þinginu, þeir hv. þm. Ágúst Einarsson og Svavar Gestsson hafa mjög lagt upp úr því við allan ræðuflutning að fara í sagnfræðilega upprifjun um stjórnun banka og peningastofnana á Íslandi. Og allt þeirra tal hefur gengið út á eitt að taka fram og endurtaka og sífellt orða það --- helmingaskipti, helmingaskipti og aftur helmingaskipti. Þetta hefur verið rauði þráðurinn í allri þeirra sagnfræði og öllu því sem þeir hafa raunverulega verið að eyða tímanum í í dag.

Ég held að rétt sé að rifja það upp, eins og kom fram í gær, að Landsbanki Íslands var stofnaður 1886. Það kom fram strax eftir að heimastjórnin kom til Íslands og eftir að Hannes Hafstein lét af völdum að upp komu upp miklir árekstrar milli framkvæmdarvaldsins og þessa ríkisbanka, stjórnun bankans. Það urðu mikil átök milli Björns Jónssonar þegar hann tók við og Tryggva. Það er ekki að ástæðulausu að við sem höfum rekið ríkisbanka og peningastofnanir, og á Íslandi hafa alla þessa öld verið ríkisbankar með örfáum undantekningum, að hið pólitíska vald hefur reynt að ná friði milli manna um stjórnun þessara stofnana til þess að gefa þeim sömu stofnunum starfsfrið. Það hefur verið nauðsynlegt. Það hefur kannski verið dýrkeypt oft á tíðum en það hefur verið nauðsynlegt vegna þess að við vorum með ríkisfyrirtæki. Bankarnir voru ríkisfyrirtæki og það var nauðsynlegt að koma á starfsfriði. Og það eru hrein ósannindi og hrein sögufölsun frá upphafi til enda að eitthvert helmingaskiptakerfi hafi nokkurn tíma ríkt. Það er bara rangt.

Þessi saga um helmingaskipti og öll sú metóða var nú búin til á 6. áratugnum þegar Framsfl. og Sjálfstfl. voru saman í tveimur stjórnum og var kennt við hermang fyrst og fremst. Þaðan kemur nú sú þjóðsaga. Helmingaskipti hafa aldrei verið í ríkisbönkum. Það hefur alltaf verið þrískipt. Nú segi ég þetta ekki af því ég ætla að svo ágætir hv. þm. eins og Svavar Gestsson og Ágúst Einarsson viti ekki betur, en þeir treysta á að þeir sem hlusti viti ekki betur. Man nú enginn þátttöku sósíalista og jafnaðarmanna í stjórnum ríkisbanka? Er það allt saman gleymt? Kannast enginn við það lengur? Eða átti að þurrka það út? Þetta er hin nýja og betrumbætta sögukennsla að þurrka út það sem er óþægilegt og passar ekki inn í þá sagnfræði sem á að segja. Nú eru þeir allir horfnir, sósíalistarnir og jafnaðarmennirnir, af spjöldum sögunnar, eftir standa bara sjálfstæðismenn og framsóknarmenn. Þetta passaði vel austur frá í Evrópu. Þetta passaði vel þegar gamli bóndinn í Kreml bjó þar sínu búi en þar er nú orðin eyðimörk og hann löngu flosnaður upp og hans afkomendur allir. Þessi aðferð dugar ekki í nútímaþjóðfélagi, hv. þm. Svavar Gestsson, því miður. (Gripið fram í.) Það særast kannski einhverjir við upprifjunina á þessu. Þetta Pravda, þetta dásamlega Pravda. Það er enginn með það lengur. Og eins og haft var eftir Napóleoni einu sinni þegar hann kom sem draugur á Rauða torgið 1. maí og sagði: Hefði ég haft þetta Pravda þá hefði enginn frétt af því að ég tapaði við Waterloo. En þetta Pravda er ekki lengur til. Þess vegna þýðir ekkert að koma hér núna og búa til einhverja nýja sögu.

Jafnaðarmenn og sósíalistar hafa verið í samkrulli með flokkunum. Ég er ekkert að mæla þessu bót en þetta var aðferð stjórnmálaflokkanna á Íslandi áratugum saman til að bankarnir hefðu einhvern starfsfrið. Það var mjög slæmt. Það var mjög dýrt. Ég ætla ekki að mæla því bót. En það tóku allir þátt í því, þeir urðu að taka þátt í því. Núna, herra forseti, erum við það heppin að tekist hefur að leiða Ísland inn á frjálsræðisbraut viðskipta. Núna er jarðvegur og umhverfi til þess að snúa frá hinum ríkisreknu peningastofnunum, núna er verið að gera það --- seint, það er alveg rétt. Ýmsir valkostir koma til greina, kannski betri en sá sem valinn var. En núna er verið að gera þetta, stíga þetta skref frá þessu skelfilega kerfi sem hefur verið þjóðinni svo dýrt. Núna er verið að því og það er afreksverkið. Það er afreksverk með tilliti til þess að ýmsir góðir og gegnir menn höfðu reynt það áður en mistekist og það gerir gæfumuninn. Góðir og gegnir menn reyndu það, þeim tókst það bara ekki, því miður. Við skulum ekkert fara í það hverjum það var að kenna. En núna erum við að koma þessu af stað.

Herra forseti. Ég er sannfærður um það að þegar menn koma saman hér í haust til nýs þings verði orðin viðhorfsbreyting hjá alþingismönnum. Ég trúi því og veit það reyndar að þessir hlutir eru að gerast hratt í hugum fólks til viðskiptanna. Þeir gerast svo hratt að ég á von á því að eftir örskotstíð skilji enginn í því hvernig á því stóð að við gátum ekki einkavætt og selt þessar peningastofnanir fyrr. Það kann enginn svörin við því. En núna erum við að fara af stað og það skiptir öllu máli. Hefðum við tekið þann pól í hæðina að segja: Þetta er ekki nógu gott, við skulum vísa þessu áfram til ríkisstjórnarinnar, hefðu stjórnarþingmennirnir vísað þessu áfram til ríkisstjórnarinnar. Hvað hefði gerst þá? Við hefðum hjakkað áfram, gáð hvort samkomulag kæmist á næsta ár um eitthvað betra eða þarnæsta ár.

Niðurstaða stjórnarflokkanna varð sú að við skyldum leggja af stað með þessi frv. og það var tekið skýrt fram af mjög mörgum, bæði sjálfstæðismönnum og framsóknarmönnum, að það væri alls ekki óskastaða þeirra að þetta væri í þessu horfi. En það tókst að ná samkomulagi um að betra væri að fara af stað en að láta enn eitt árið líða. Þetta eru rökin og um þetta hafa menn verið mjög hreinskilnir. Menn hafa sagt þetta hér. Menn hafa farið í gegnum þetta og ekkert verið að leyna neinu hvers vegna það er, alls ekki. Þannig að núna þegar þetta frv. er að verða að lögum, þá skulum við vonast til þess að það muni strax bera þann árangur að þegar á næsta hausti eða á næsta ári séu menn tilbúnir að ganga enn þá lengra í einkavæðingunni en menn eru í dag vegna þess að mjög mikil þörf er á því. Það er til máltæki sem segir hálfnað er verk þá hafið er, og ég held að við séum komnir ótrúlega langt af stað ef okkur tekst að gera þetta að lögum.