Réttarstaða flóttamanna

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:35:50 (5666)

1997-04-23 15:35:50# 121. lþ. 110.4 fundur 577. mál: #A réttarstaða flóttamanna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:35]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Svarið við fyrstu spurningunni er já. Lagasviði dómsmrn. ásamt með útlendingaeftirlitinu hefur verið falið að endurskoða lögin um eftirlit með útlendingum.

Sem svar við annarri spurningunni er það að segja að við endurskoðun laga um eftirlit með útlendingum er einkum tekið mið af nýlegum lögum um þetta efni á Norðurlöndum, lögum sem eru í flestu ítarlegri en þau lög sem gilda hér á landi í dag. Þar verður að sjálfsögðu tekið tillit til nýrra viðhorfa, svo sem nýrra ákvæða í stjórnarskránni um mannréttindi og réttarstöðu útlendinga, lögfestingar mannréttindasáttmála Evrópu, svo og annarra alþjóðlegra skuldbindinga eins og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna. Þá verður þar tekið tillit til aðildar Íslands að Schengen-samstarfinu.

Við endurskoðun laga um eftirlit með útlendingum verður tekið tillit til allra þeirra atriða sem varða meðferð mála vegna flóttamanna og spurt er um af hv. fyrirspyrjanda. En það er rétt að taka fram í þessu sambandi að málsmeðferðarreglur í Schengen-samningnum og samningi Evrópusambandsríkjanna um hæli, sem kenndur er við Dublin sem gert er ráð fyrir að Ísland tengist með sérstökum samningi, eru mun ítarlegri en um er að ræða í dag.

Varðandi þriðju fyrirspurnina er það að segja að markmiðið er að leggja endurskoðuð lög eða endurskoðað frv. til laga fyrir næsta þing og væntanlega þá í tengslum við þingmál og frumvörp sem flytja þarf vegna aðildar Íslands að Schengen-samningnum.

Varðandi fjórðu spurninguna er það að segja að flóttamannaráð hefur enn ekki komið að endurskoðuninni en ráð er fyrir því gert að samvinna og samráð verði höfð við flóttamannaráð þegar lengra líður á starf lagasviðs ráðuneytisins við þetta nýja frv.

Varðandi fimmtu spurninguna er það að segja að á þeim árum sem spurt er um, frá 1990--1996, komu 30 einstaklingar og báðu um hæli á landamærunum. Niðurstöður mála voru þær að í engu tilviki var fallist á hælisumsókn en í tíu tilvikum var fallist á dvalarleyfi af öðrum ástæðum. Í hinum málunum var viðkomandi ýmist snúið aftur til þess lands sem þeir komu frá eða veitt aðstoð til að komast þangað, í öllum tilvikum til einhvers Norðurlandanna.

Frá því að lögum um eftirlit með útlendingum var breytt árið 1993 hafa neikvæðar ákvarðanir sem teknar eru hjá útlendingaeftirlitinu verið skriflegar. En það er ekki hægt að fullyrða af þeim gögnum sem ráðuneytið er með undir höndum hvort svo hafi verið í öllum tilvikum fyrir þann tíma, en eins og kunnugt er þá úrskurðaði hlutaðeigandi lögreglustjóri í þeim málum fyrir gildistöku þeirra laga.

Þá er einnig rétt að benda á að með lagabreytingunni frá 1993 var lögfestur málskotsréttur þeirra sem leita hér hælis. Á þessum tíma hefur einungis þremur úrskurðum þar sem ekki var falist á hælisumsókn verið skotið til ráðherra. Í tveimur tilvikum var úrskurður staðfestur en í einu tilviki var úrskurði breytt og viðkomandi veitt dvalarleyfi.