Breytingartillaga við 407. mál

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:51:26 (5672)

1997-04-23 15:51:26# 121. lþ. 111.91 fundur 300#B breytingartillaga við 407. mál# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[15:51]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs sem varaformaður efh.- og viðskn., þ.e. starfandi formaður nefndarinnar, af því að hv. þm. varpaði hér fram spurningum og vakti máls á málefni sem tengist nefndarstörfum. Ég vil upplýsa að nefndin hefur afgreitt þetta mál til 2. umr. og sú umræða fer fram hér á eftir. Það er rétt sem hv. þm. sagði að meiri hluti nefndarinnar leggur til að einn milljarður verði tekinn út úr Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og það var vegna þess að menn töldu eiginfjárstöðu hans vera það rúma að vel væri hægt að gera það. Meiri hlutinn leggur til þessi milljarður verður varinn til sérstakra verkefna sem tengjast landsbyggðinni. Sú brtt. liggur hér fyrir af hálfu meiri hlutans. Í nefndarstarfinu var vitaskuld farið yfir allar hliðar þessa máls og reyndar eru fjögur álit úr nefndinni varðandi þetta mál. Hins vegar minnist ég þess ekki að fram hafi komið í umræðunni tilteknir nýir þættir í byggðastefnu eða þau mál sem hv. þm. gerði að umtalsefni. Það var ekki upplýst í nefndinni að fyrir lægju einhverjar nýjar hugmyndir eða þess háttar eins og hv. þm. vitnaði í skjöl um. Þessi ákvörðun og nefndarstarfið fór því fram á grundvelli frumvarpanna og var ekki rætt á venjulegum nefndarfundum í ljósi þess sem hv. þm. sagði. En nú verða menn að taka viljann fyrir verkið að hugsanlegt er að stjórnarmeirihlutinn hafi haft vitneskju um málið og rætt það út frá því sjónarmiði. Það þekki ég ekki. Það kom a.m.k. ekki fram á almennum nefndarfundum. Ég hef enga ástæðu til að halda annað en að málið hafi eingöngu verið rætt út frá frumvörpunum eins og þau lágu fyrir og nefndarálitin bera alveg skýr merki um.