Breytingartillaga við 407. mál

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 15:53:53 (5673)

1997-04-23 15:53:53# 121. lþ. 111.91 fundur 300#B breytingartillaga við 407. mál# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[15:53]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Þegar það er ekki aðeins búið að tilkynna til fjölþjóðastofnunar sem við erum aðilar að að ríkisstjórn Íslands hafi markað nýja samræmda byggðastefnu til fimm ára þar sem gert er ráð fyrir tilteknum fjárstuðningi til tiltekinna verkefna í tilteknum landshlutum, heldur einnig búið að fá þau tilmæli samþykkt og viðurkennd af Eftirlitsstofnun EFTA, þá er full ástæða til þess, þegar gripið er til svona sérstakra og takmarkaðra ráðstafana eins og gert er í þessu frv., að spyrjast fyrir um það hvernig þær ráðstafanir falla að þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt Eftirlitsstofnun að hún muni grípa til. Hvernig fellur þetta t.d. að þeim ráðagerðum sem hæstv. ríkisstjórn er þá væntanlega með varðandi eflingu og uppbyggingu Byggðasjóðs? Þarna er um að ræða einn milljarð króna til mjög takmarkaðra verkefna sem getur ekki verið annað en lítill hluti af því sem hæstv. ríkisstjórn ráðgerir og tilkynnir að hún hafi í hyggju og fær samþykkt frá Eftirlitsstofnun EFTA. Ég óska eindregið eftir því að þeir efh.- og viðskiptanefndarmenn geti svarað slíkum spurningum, þ.e. hvernig og að hve miklu leyti þetta er hluti þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur tilkynnt til Eftirlitsstofnunar að hún sé búin að marka til fimm ára og hvers sé að vænta að verði þá gert varðandi aðra þætti í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni, en aðeins þá takmörkuðu þætti sem þarna er um að ræða.

Það er mjög eðlilegt að hv. efh.- og viðskn. sé spurð slíkra spurninga og ég fer þess á leit við nefndina að hún láti ekki taka frv. um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins til 2. umr. fyrr en hún er búin að fá þessar upplýsingar, fjalla um þær og getur svarað spurningum þingmanna þar um.

Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að varaformaður nefndarinnar beiti sér fyrir því að þannig verði á málinu haldið.