Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 16:03:43 (5677)

1997-04-23 16:03:43# 121. lþ. 111.1 fundur 408. mál: #A Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.# frv., ÁE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[16:03]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Stjórnarandstaðan studdi þá tillögu sem var felld hér áðan um að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar. Nú er að koma til atkvæða 1. gr. þessa frv. Við erum þeirrar skoðunar að það sé mjög misráðið að sameina fjárfestingarlánasjóðina eins og gert er ráð fyrir í frv. Breytingartillögur frá 1. minni hluta breyta engu um eðli málsins.

Stjórnarandstaðan hefur talið rétt að stokka upp fjárfestingarlánasjóðina en lagt til að það gerist þannig að þeir renni inn í viðskiptabankana sem styrki þá og bankarnir verði endurskipulagðir til framtíðar. Við munum greiða atkvæði gegn þessari 1. gr. frv. en að öðru leyti sitja hjá við einstakar greinar, en styðja þó þær sem horfa til bóta. Þetta frv. er knúið fram af meiri hluta þingheims og er fyrst og fremst á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og þá er það hennar að fylgja málinu eftir.