Helgidagafriður

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 16:22:14 (5681)

1997-04-23 16:22:14# 121. lþ. 111.13 fundur 31. mál: #A helgidagafriður# (heildarlög) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[16:22]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við atkvæðagreiðslu við 2. umr. þessa máls boðaði ég að ég mundi beita mér fyrir því að reynt yrði að knýja fram breytingar á frv. eins og það lá þá fyrir og því er ég hingað kominn til þess að mæla fyrir brtt. á þskj. 853 við frv. til laga um helgidagafrið þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Orðin ,,til kl. 6.00 að morgni næsta dags`` í 2. tölul. 2. gr. falli brott.``

Þessi brtt. felur einfaldlega í sér að helgi föstudagsins langa nái fram til miðnættis í stað til kl. 6 að morgni næsta dags eins og frv. gerir núna ráð fyrir og helgi föstudagsins langa, páskadags og hvítasunnudags verði þannig jafngild. Það er að mínu mati hægt að færa fyrir því nokkur rök að hafa þennan háttinn á sem hér er verið að leggja til og ég skal nefna þrjú atriði í því sambandi. Í fyrsta lagi er það að öllu leyti eðlilegt að samræmi sé í helgidagafriði föstudagsins langa og helgidagafriði páskadags og hvítasunnudags. Frv. gerir ráð fyrir því, og það hefur farið þannig í gegnum 2. umr., að helgidagar þjóðkirkjunnar á páskadag og hvítasunnudag séu frá kl. 12 á miðnætti til 12 á miðnætti, þ.e. í 24 tíma, en frv. virðist gera ráð fyrir því að öðru máli skuli gegna um föstudaginn langa án þess að fyrir því séu flutt nein sérstök rök og gert er ráð fyrir því helgidagafriður á föstudaginn langa standi til kl. 6 að morgni næsta dags. Fyrir því eru engin sérstök rök eins og ég hef nefnt.

Í öðru lagi er hitt sem auðvitað er mjög athyglisvert og nauðsynlegt að benda hér á og það er að í nefndaráliti hv. allshn. er fjallað almennt um þá röksemdafærslu sem býr að baki frv. og þar segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Frumvarpið felur í sér allnokkra rýmkun á heimildum til ýmiss konar starfsemi á helgidögum og hefur verið rætt ítarlega um það í nefndinni hversu rúmar slíkar heimildir eigi að vera og á hvaða dögum þær eigi að gilda.`` --- Síðan er rétt að undirstrika það sem í framhaldinu kemur, en þar segir svo, með leyfi forseta: ,,Komu þar helst fram þau sjónarmið að leitast við að tryggja friðhelgi heimila og helgihald jólanna eins og frekast væri unnt, en hafa víðtækari heimildir fyrir ýmiss konar starfsemi um páska, en það er sá tími sem algengt er að fjölskyldur nýti til ferðalaga og afþreyingar.``

Ég tek heils hugar undir þessa röksemdafærslu og þennan málflutning sem kemur fram þarna í nefndaráliti allshn. Þess vegna undraðist ég nokkuð þegar ég leit brtt. frá nefndinni að þar gat ekki að líta rýmkun í þá átt sem nefndin þó var að boða með þessum orðum í nefndarálitinu. Þetta finnst mér vera rök nr. tvö, að ég tek með öðrum orðum undir skoðun og álit allshn. sjálfrar sem hefur farið ofan í þetta mál eins og hér segir og er í raun og veru að fylgja eftir þeirri hugsun sem mótuð er í nefndarálitinu um frv. til laga um helgidagafrið.

Síðast en ekki síst ber að nefna það að um páska á undanförnum árum og áratugum hafa orðið til venjur, til að mynda í tengslum við þá miklu og öflugu skíðastarfsemi sem er úti um landið, á Ísafirði, Akureyri og víðar, sem gerir það að verkum að haldnar eru samkomur og mannamót eftir miðnætti á föstudaginn langa. Og ég sé ekki betur en ef þetta frv. yrði samþykkt óbreytt eins og það liggur fyrir frá allshn. að þá væri búið að leggja það af að menn gætu safnast saman til samkomuhalds og mannamóta eftir miðnætti á föstudaginn langa því það er mjög fortakslaust í þessu frv. hvenær hægt sé að gefa undanþágur og ekki er gert ráð fyrir því samkvæmt þessu frv. að að hægt sé að veita undanþágu fyrir þessum tíma.

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að vekja athygli á því að þetta er auðvitað allveigamikil atvinnustarfsemi og afþreying fyrir fólk. Engin efnisleg rök mæla með því að banna samkomuhald á þessum tíma, ekki síst þegar við höfum í huga að hér er um að ræða ansi veigamikinn þátt í því menningarstarfi og þeirri samfélagsmynd sem víða er úti um landið þar sem svona háttar til. Og þegar rökin eru svona augljós og þegar hv. allshn. sjálf bendir á að miklu eðlilegra sé að hafa víðtækari almennar heimildir fyrir ýmiss konar starfsemi um páska en verið hafa, þá gefur auga leið að við hljótum að tryggja með löggjöfinni að við séum a.m.k. ekki að þrengja þann praxís sem hefur verið í gangi undanfarin ár og áratugi og alls staðar gefist vel og ágætlega og prýðilega og enginn kvartar undan. Þetta er ekki vandamál þar sem þessi háttur hefur verið hafður á, til að mynda á Ísafirði svo að ég taki sem dæmi, nema síður sé. Það hefur verið til bóta að mati allra að hafa þennan háttinn á og auðvitað mæla engin sérstök rök með því að gera lífið minna bærilegt en það er. Ég a.m.k. skil ekki, virðulegi forseti, úr því að þessi hugsun læðist upp í kollinn á mér núna, að það geti verið markmið löggjafans að gera lífið minna bærilegt fyrir fólk vítt og breitt um landið. (Gripið fram í.) Ég veit að hv. 2. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, tekur mjög rösklega undir það með mér. Þess vegna, virðulegi forseti, hef ég leyft mér að flytja þessa tillögu.

Ég rakti það við atkvæðagreiðsluna við 2. umr. að ég átti þess ekki kost --- ég var með fjarvistir þann dag sem þetta mál var rætt --- við 2. umr. að leggja fram brtt. sem vissulega hefði verið æskilegra. Þess vegna gríp ég til þess úrræðis að leggja fram þessa brtt. við 3. umr. málsins.