Helgidagafriður

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 16:29:30 (5682)

1997-04-23 16:29:30# 121. lþ. 111.13 fundur 31. mál: #A helgidagafriður# (heildarlög) frv., Frsm. VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[16:29]

Frsm. allshn. (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur kynnt brtt. við það frv. sem hér er til umræðu um helgidagafrið. Hv. allshn. hefur unnið gífurlega mikið starf við að leggja fram brtt. og vinna þetta mál í nefndinni og hefur komist að niðurstöðu þar sem hún er einhuga í afstöðu sinni. Það sem hv. þm. tekur ekki með í reikninginn í öllum sínum málflutningi er að samkvæmt frv. eins og það liggur fyrir eftir 2. umr. er heimilt að halda dansleiki, sem mér heyrist að sé það sem málið snýst um, laugardagskvöldið fyrir páska þannig að dansleikurinn fái að ná fram á nóttina alveg til kl. 3. Þetta gildir einnig um laugardaginn fyrir hvítasunnu. Það má því segja sem svo að verið sé að breyta til þannig að ekki sé heimilt að halda dansleiki kl. 12 á miðnætti á föstudaginn langa en hins vegar heimilt að halda dansleiki á laugardag fyrir páska og þeir dansleikir geti hafist þess vegna kl. 10 að kvöldi.

Ástæða þess að ég styð ekki brtt. hv. þm. er sú að ég vil ekki að föstudagurinn langi verði venjulegur balldagur. Því er ég andvíg. Ég er hins vegar mjög ánægð með það sem frv. kveður á um að heimila dansleiki á laugardag fyrir páska.

Hins vegar get ég sagt það að lokum að ég ber virðingu fyrir hefðum á Vestfjörðum.