Helgidagafriður

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 16:31:46 (5683)

1997-04-23 16:31:46# 121. lþ. 111.13 fundur 31. mál: #A helgidagafriður# (heildarlög) frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[16:31]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta voðalega einkennileg skilaboð. Þau eru bara þessi: Þið getið bara dansað á laugardagskvöldum. Þetta eru ekki nokkur rök í þessu máli. Rökin eru þau að þeir sem hafa haft af því ánægju að koma saman til mannamóta og skemmtanahalds eftir miðnætti á föstudaginn langa um áratugi eigi vegna tilskipunar frá Alþingi að láta af þeim leiða sið og skemmta sér í staðinn af því að það er talið hentugra og skynsamlegra, betra og þénugra, á laugardagskvöldum. Þetta eru náttúrlega uppeldisaðferðir, virðulegi forseti, sem ganga ekki þegar við erum að hefja nýja öld.

Í öðru lagi. Hv. þm. talar um að með þessu sé verið að gera föstudaginn langa að venjulegum balldegi eins og hv. þm. orðaði það. Hvað er hv. þm. að segja? Er hv. þm. að segja að páskadagur og hvítasunnudagur, en þá stendur helgidagafriðurinn bara til miðnættis, verði með þessari ákvörðun venjulegir balldagar? Tölum við þá hér eftir um páskadag og hvítasunnudag sem balldaga? Ekki í mínum huga. Þetta eru bara páskadagur og hvítasunnudagur, helgir dagar og ekki neinir balldagar.

Hv. þm. lauk síðan máli sínu með því að segja að hún bæri virðingu fyrir hefðum Vestfirðinga. Ekki þó nægilega mikla virðingu til þess að leyfa Vestfirðingum að stunda þær hefðir sem þar hafa gefist vel og verið vinsælar.