Helgidagafriður

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 16:33:35 (5684)

1997-04-23 16:33:35# 121. lþ. 111.13 fundur 31. mál: #A helgidagafriður# (heildarlög) frv., Frsm. VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[16:33]

Frsm. allshn. (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir það að ég beri virðingu fyrir hefðum Vestfirðinga, þá ber ég enn þá meiri virðingu fyrir þeim hefðum okkar Íslendinga og annarra þjóða sem eru kristinnar trúar að halda dálítið utan um föstudaginn langa vegna þess að hann er mesti sorgardagur í kristinni sögu. Páskadagur er hins vegar gleðidagur og þess vegna gildir öðru máli með þann dag. Mér finnst ekki ástæða til að hafa neitt í flimtingum varðandi þetta mál. Mér finnst þetta vera þó nokkuð stórt mál. Af því að hv. þm. talaði um uppeldisaðferðir þá má alveg tala um uppeldisaðferðir í þessu sambandi. Mér finnst, og er alin upp við það, að föstudagurinn langi sé enginn gleðidagur og ball sem hefst kl. 12 á miðnætti þann dag þýðir gleðskap að kvöldi þess dags. Þess vegna styð ég ekki brtt. hv. þm. eins og ég lét koma fram í fyrri ræðu minni.