Skjaldarmerki Íslands

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 16:46:24 (5687)

1997-04-23 16:46:24# 121. lþ. 111.16 fundur 495. mál: #A skjaldarmerki Íslands# frv., forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[16:46]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um skjaldarmerki Íslands sem samið er af sömu nefnd og samdi frv. til laga um breyting á lögum um þjóðfána Íslendinga sem ég mælti fyrir hér áðan.

Það kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir að eins ítarlega og fánalögin mæla fyrir um vernd þjóðfánans hafi engin slík ákvæði verið sett skjaldarmerkinu til verndar eða nokkrar reglur um meðferð þess og notkun, hvorki fyrir stjórnvöld né almenning ef frá er talinn áskilnaður samkeppnislaga um að merkið megi ekki nota í heimildarleysi við framboð vöru eða þjónustu. Aðrar réttarreglur um skjaldarmerkið eru því aðeins til í forsetaúrskurði, um gerð þess og útlit, nr. 35 17. júní 1944.

Vitaskuld er það svo að ríkisskjaldarmerkið hlýtur fyrst og fremst að vera merki og tákn ríkisins eða þess sem falin er handhöfun ríkisvalds til að auðkenna með skjöl og annað það sem frá ríkinu stafar. Engu að síður hafa menn þóst merkja að notkun þess sé nokkru almennari en svo að hún taki einungis til handhafa opinbers valds. Kemur þar m.a. til af því að hin títtnefndu verndarákvæði fánalaganna hafa hamlað því að framleiðendur vöru og þjónustu hafi getað nýtt sér fánann til auðkennis um uppruna framleiðslu sinnar. Nokkur ásókn hefur því alltaf verið í að nota skjaldarmerkið í því skyni. Með því að verndarákvæði fánalaganna hafa aldrei verið túlkuð svo að þau gætu með lögjöfnun náð jafnframt yfir skjaldarmerkið og ekkert í lögskýringargögnum með fyrrnefndu ákvæði samkeppnislaga hefur varpað ljósi á hvaða sjónarmið eigi að leggja mat á slíkum umsögnum til grundvallar, hefur notkun í því skyni yfirleitt verið heimiluð, enda mundu ólögákveðnar takmarkanir á athafnafrelsi almennings að þessu leyti helst verða reistar ef meðferð þess þætti stríða gegn almennu velsæmi, siðferðisvitund almennings eða öðrum slíkum réttarhugmyndum sem blunda í þjóðarsálinni.

Þar eð starf nefndar þeirrar sem skipuð var til að endurskoða fánalögin miðaði einmitt að því að rýmka heimildir til að nota fánann í því skyni sem skjaldarmerkið hefur sumpart verið nýtt í hans stað fól ég henni jafnframt það tímabæra verkefni að semja reglur um meðferð þess og notkun sem samboðin getur talist mikilvægi þess sem ríkistákns og þeirrar helgi sem það á að hafa í vitund þjóðarinnar. Niðurstaða nefndarinnar er sú sem ég legg fyrir hið háa Alþingi og hygg ég að það sé í fyrsta skipti sem það fær tillögur þessa efnis til umþóttunar.

Mun ég þá, herra forseti, víkja að einstökum ákvæðum frv. en vísa að öðru leyti til athugasemda sem því fylgja.

Í 1. gr. er forsetaúrskurður frá 1944 um gerð og útlit skjaldarmerkisins tekinn upp óbreyttur.

Í 2. gr. er að finna heimild stjórnvalda til að nota merkið. Hún tekur að sjálfsögðu til allra þriggja þátta ríkisvaldsins, löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds. Utan hennar falla hins vegar sveitarfélög og stofnanir þeirra, en um þau gilda sérstakar reglur um byggðamerki. Árétta ber að hér er um heimild að ræða en ekki skyldu að öðru leyti en því sem boðið er í 5. gr. frv. Ýmsar ríkisstofnanir sem tekið hafa upp eigin merki geta því notað þau áfram kjósi þau það fremur.

Í 3. gr. er mælt fyrir um að merkið skuli notað til auðkennis starfi, stöðu og skilríkjum stjórnvalda og í 4.--8. gr. er að finna helstu tilvik þeirrar notkunar, flestar venju samkvæmt.

Í 9. gr. er mælt fyrir um hönnun merkisins og er forsrn. falið eftirlit með að þar sé allt með felldu.

Í 10. gr. er, öndvert við áður tilkynntar breytingar á fánalögunum, lagt bann við því að skjaldarmerkið sé notað í vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vörum eða þjónustu. Bæði frumvörpin ganga jafnframt út frá að hvorki sé heimilt að nota þjóðfánann né skjaldarmerkið í firmamerki.

Í 11. gr. er síðan mælt fyrir um viðbrögð stjórnvalda ef út af er brugðið.

Í 12. gr. er ákvæði, sem fyrir er í samkeppnislögum, um að óheimilt sé að selja eða bjóða til sölu vörur af erlendum uppruna ef á þær hefur verið sett mynd af skjaldarmerkinu, en reyndar ætti 10. gr. frv. einnig að ná yfir þessi tilvik.

Í 13. gr. er að finna ákvæði sem e.t.v. kann að þykja íþyngja almenningi hvað mest, en þar er lagt til að bannað verði að hafa skjaldarmerkið til sölu sem minjagrip, barmmerki eða annað þess háttar eins og tíðkast hefur. Hér er þó til þess að líta að eigi skjaldarmerki að þjóna tilgangi sem auðkenni hins opinbera verður um leið að koma í veg fyrir að það verði jafnframt notað af öðrum aðilum, jafnvel í blekkingarskyni.

Í 14. gr. er lagt til að heimilt verði að útfæra ákvæði frv. nánar í reglugerð og loks er í 15. gr. að finna sams konar sérrefsiheimild og fánalögin geyma.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.