Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 16:51:52 (5688)

1997-04-23 16:51:52# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. meiri hluta EOK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[16:51]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta efh.- og viðskn., mál 407, nál. á þskj. 942. Þetta mál, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, er þriðja málið í röð sem við tölum hér fyrir. Við erum búin að ræða um Fjárfestingarsjóðinn og um að gera Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands að hlutafélögum.

Þessi frumvörp eru eins konar þríeyki og má segja að umræðurnar um þau séu eins konar þríleikur. Þetta hangir allt saman og eru allt greinar af sama meiði. Eins og í gær þegar við ræddum fjárfestingarlánasjóðina er það niðurstaða meiri hluta efh.- og viðskn. að rangt sé að gera viðurhlutamiklar breytingar á frv. frá því sem sett var fram við 1. umr. Það segir sig sjálft eðli málsins samkvæmt eins og við höfum þegar rætt.

Í starfi nefndarinnar var rætt við alla sömu aðila og getið hefur verið um í fyrri umræðum um Landsbankann, Búnaðarbankann og fjárfestingarsjóði atvinnuveganna, svo og bárust skriflegar umsagnir frá öllum sömu aðilum. (Gripið fram í: Á ekki að lesa þá upp?) Ég tel það ekki rétt, herra forseti, að lesa þá upp vegna þess að þetta eru sömu aðilar. Þeirra hefur verið kirfilega getið áður og það kemur fram í þingskjölum þannig að þetta sé nóg tíundað upp á síðari tíma sagnfræði. En ef áskorun er um það má breyta því, en ég held að þess sé ekki þörf.

Meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt með nokkrum breytingum sem gerð er grein fyrir á sérstöku þingskjali. Er þá fyrst að nefna, sem var reyndar farið að ræða hér í gær, að nefndin gerir tillögur um að framlag til hlutafjársjóðsins, nýsköpunarsjóðsins, sé hækkað um 1.000 millj. kr. Líka er gert ráð fyrir því að þessir viðbótarpeningar, 1.000 millj., renni í sérstakan sjóð sem er ætlað það verkefni að lána fé fyrst og fremst út á landsbyggðina til áhættulánastarfsemi. Þetta er nokkur nýskipan mála og við sem flytjum þessa tillögu trúum því að það geti orðið mjög til góðs. Eins og allir vita hefur á undanförnum árum sem aldrei fyrr orðið meiri og meiri byggðaröskun í þjóðfélaginu og við, líkt og stjórnmálamenn í öðrum löndum Evrópu, trúum því og vitum að það er þjóðfélaginu mjög nauðsynlegt ef þess fyndist einhver staður, ef við fyndum fyrir því rök og fyndum fyrir því efnahagslega getu að setja ný markmið og nýjar stoðir undir búsetu fólks sem víðast í kringum landið. Við vitum að félagslega og efnahagslega erum við að tapa stórkostlega miklu fé með þeirri miklu röskun sem er að verða á byggðinni og ef við getum á réttan hátt stuðlað að því að þetta stoppi þannig að jafnvægi skapist yrði það til mjög mikilla efnahagslegra framfara. Svona áhættufé hefur ekki verið mikið framboð á á Íslandi en eins og allir vita hafa margir kvartað yfir því að þetta mundi líta öðruvísi út ef svo væri að leita mætti í einhvern slíkan sjóð.

Við sem flytjum þessa tillögu erum ekki að halda því fram að með þessari sjóðstofnun eða þessum möguleikum séum við að leysa allan vanda. Það er langt í frá. Við vitum það og erlend reynsla er sú að þar sem menn eiga völ á áhættufjármagni, svona hörðum peningum, hefur reynslan verið sú að hugmyndirnar og tillögurnar um nýsköpun í atvinnulífinu hafa orðið færri en flesta hefur grunað. Reynslan er því yfirleitt þannig að tillögurnar eru mjög fáar, þ.e. raunhæfar tillögur til að byggja upp atvinnurekstur. En það skiptir ekki sköpum, herra forseti, þó að ekki væri nema ein tillaga sem reyndist raunhæf, tvær, þrjár, fjórar eða fimm, hversu fáar sem reyndust raunhæfar og gætu komið sem nýjar stoðir undir byggðir landsins, þá yrðu þær til stórkostlegra framfara. Það er þetta sem við viljum reyna. Ef menn hins vegar segja að engar slíkar tillögur séu til og engir slíkir möguleikar séu til, það eru náttúrlega alltaf úrtölumenn sem koma með slíkar umræður, þá er heldur enginn skaði skeður. Peningarnir fara þá hvergi og eins og við höfum áður getið í umræðunni um Fjárfestingarbanka Íslands var það mat þeirra fagmanna sem við fengum til starfa að hann væri yfirfjármagnaður, hann mundi ekkert skaðast við að hafa minna eigið fé. Arðsemin mundi verða meiri og hlutur ríkissjóðs þar af leiðandi verða betri með því að taka þessar 1.000 millj. og verja þeim til þessa verkefnis sem við vitum að er svo brýnt og trúum að muni skila samfélaginu miklum árangri sé rétt á haldið.

Í öðru lagi, herra forseti, vil ég vekja athygli á því að á bls. 7 í greinargerð með frv. um starfshætti Nýsköpunarsjóðsins er farið yfir það nokkrum orðum, og vitnað til upplýsinga frá European Venture Capital Association, um þrjár meginstoðir sem menn fara eftir og hafa til hliðsjónar við áhættufjármögnun. Þar er gerð grein fyrir því um hvað er að ræða. Í fyrsta lagi þróunarfjármagn eða hugmyndafé. Í öðru lagi byrjunarfjármagn eða upphafsfé. Og í þriðja lagi fjármagn til vaxtar eða vaxtarfé. Í greinargerðinni er síðan sagt að hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í fjárfestingarverkefnum muni aðallega falla undir þennan þriðja flokk, þ.e. fjármögnun vaxtar.

Við í meiri hluta efh.- og viðskn. erum þessu alls ekki sammála. Við teljum að áhersla sjóðsins eigi að vera allt önnur. Hún eigi fyrst og fremst að vera þróunarfjármagn, þ.e. að hjálpa mönnum til þess að þróa hugmyndir eða frumfjármagn til að stofna atvinnurekstur. Við höfum vitnisburði mjög margra þeirra aðila sem kunnugastir eru þessum hlutum, sem komu til nefndarinnar og ræddu þessa hluti og gerðu allir grein fyrir því að þetta væri þannig að við þyrftum langmest á því að halda á Íslandi að styðja frumframtakið, frumkvöðlana, til þess að koma af stað nýjum hugmyndum, nýjum verkefnum og nýjum atvinnurekstri. Fyrir þessari skoðun okkar gerum við grein í nefndarálitinu og teljum mjög brýnt að ítreka það og undirstrika.

Breytingartillögur okkar þar fyrir utan eru fyrst og fremst tæknilegar. Það er útskýring á tiltölulega nýju hugtaki sem lítið hefur v erið notað, þ.e. stjórnmálalegri áhættu og síðan með tilflutninginn á 1.000 millj. þannig að þær skýra sig mestmegnis sjálfar og hafa ekki neina efnislega þýðingu. Hitt hefur gríðarmikla efnislega þýðingu, þessi 1.000 millj. nýi áhættusjóður og hann er aðalbreytingin sem hér er verið að leggja til. Hann er gríðarlega mikil breyting og einnig, eins og ég hef áður farið yfir, herra forseti, áhersla okkur á hvar sjóðurinn eigi að vera, hvernig hann eigi að starfa og að hvaða verkefnum hann eigi að einbeita sér.

Að svo mæltu held ég að ég hafi gert nægjanlega grein fyrir því sem meiri hluti efh.- og viðskn. vill koma á framfæri í upphafi 2. umr.