Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 17:21:00 (5690)

1997-04-23 17:21:00# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[17:21]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs í þessari umræðu vegna þess að ég treysti mér ekki til þess að styðja eina af brtt. meiri hluta efh.- og viðskn. á þskj. 943 þrátt fyrir það að eins og alþjóð veit sitja hvað mestir vitringar í hv. efh.- og viðskn. Þó að þeir hafi upphaflega verið þrír, fyrir um 1997 árum, telst það sennilega nokkuð góð ávöxtum í efh.- og viðskn. að þeir skuli vera orðnir níu.

Ástæða þess að ég get ekki stutt þessa tillögu er að þar er gert ráð fyrir því að eigið fé Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verði aukið um einn milljarð og að þessi eini milljarður, sem manna á meðal er kallaður milljarðurinn hans Vilhjálms, verði notaður til þess að fjárfesta með áherslu á landsbyggðina. Ég hélt satt að segja að þeir tímar væru liðnir að við værum að auka sértæka aðstoð við tiltekin landsvæði og því yrði talið eðlilegt að ef menn vildu auka á eigið fé sjóðsins, þá mundu gilda um það almennar reglur og allir landshlutar vera jafnir við ákvörðunartöku hvað þann milljarð snertir eins og annað. Þó verður að segja að vitringarnir í hv. efh.- og viðskn. hafa upp fundið nýja leið um hvernig á að vinna með þetta fjármagn. Það á að bjóða það út í einingum og þeir sem síðan fá verkið munu hagnast í samræmi við þann ágóða sem þeir ná út úr fjárfestingunni. Ég hefði viljað draga þá ályktun að ef þeim tekst vel upp í verki sínu, þá væri það staðfesting á því að einmitt þessi sérstaka ráðstöfun var algjörlega óþörf því að verkefnið hefði verið það gott að það hefði getað fengið fjármagn á hinum almenna markaði, hvort sem var í bankakerfinu eða á hlutabréfamarkaðnum. Ef hins vegar ekki tekst vel til og þessum aðilum reynist ekki fært að ávaxta þetta fé svo vel sé, þá fá þeir væntanlega ekki heldur neina greiðslu og fjármunirnir tapast, og þá munum við tapa einum milljarði sem betur hefði verið varið til þess að lækka skuldir ríkissjóðs. Eins og við vitum eru þær allt of háar og vaxtagreiðslur ríkissjóðs í dag allt of miklar og þó að mönnum finnist kannski ekki muna um einn milljarð þegar borið er saman við stóru tölurnar í skuldum ríkissjóðs, þá verð ég að segja eins og er að ég sé eftir hverjum milljarði sem fer í það að hækka skuldirnar og ekki fer í það að lækka þær. Ég treysti mér því ekki til þess að styðja þessa brtt. meiri hluta hv. efh.- og viðskn. á þeim forsendum sem ég hef hér rakið.