Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 17:55:29 (5694)

1997-04-23 17:55:29# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. 3. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[17:55]

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru falleg orð úr munni hæstv. viðskrh. En í hverju liggur það þá þegar verið er að skoða frv. um Nýsköpunarsjóð og um Fjárfestingarbankann líka sem hann vitnaði til að væru mjög merk mál sem mundu styrkja okkar stöðu á alþjóðlegum vettvangi, að það leggjast allir gegn þessu frv. sem vit hafa á málum? Það eru ekki einungis stjórnarandstæðingar, því að við getum sagt að þeir séu með hefðbundna andstöðu við góð mál ríkisstjórnarinnar. En það eru allir sérfræðingar sem eru á móti þessum fjárfestingarbanka og það eru fjölmargir sérfræðingar sem eru á móti Nýsköpunarsjóðnum. Það er vegna þess að útfærslan er slæm. Ég er ekki á móti nýsköpun. Ég mundi taka heils hugar og tek heils hugar undir óskir hæstv. viðskrh. um að við mundum verða ofar á næsta ári í alþjóðlegum samanburði. Aðferðafræðin sem lagt er upp með og gengur eins og rauður þráður í gegnum öll þessi frumvörp er fyrst og fremst að tryggja forræði þessara tveggja stjórnmálaflokka. Það fer minna fyrir skynsamlegri útfærslu til framfara, hvort sem það er uppstokkun í fjárfestingarlánaumhverfinu eða til nýsköpunar. Því miður er ég hræddur um að þessi Nýsköpunarsjóður verði ekki það tæki sem viðskrh. vonast eftir af því að honum er markaður þessi rammi. Ég vildi gjarnan trúa því að hann yrði þetta góða tæki eins og hann vonast eftir. Ég er hins vegar sannfærður um að það hefði þurft og væri betra að gera umgerð hans öðruvísi, en ekki þá hvað síst að reyna að leggja áherslu á aðra þætti sem ég rakti í ræðu minni. Ég efast ekki um góðan vilja hæstv. viðskrh. um þetta mál en útfærsla hugmyndanna eins og hún kemur fram í þessum þremur frumvörpum sem við erum nú að ljúka að ræða hér í 2. umr. er því miður alls ekki nógu góð.