Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 17:57:37 (5695)

1997-04-23 17:57:37# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[17:57]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er of sterkt til orða tekið þegar því er haldið fram að allir leggist gegn þeim málum sem hér eru til umræðu. Eins og ég fór hér yfir í gær við lokaumræðu um fjárfestingarbankann, þá er það svo að helmingur umsagnanna er jákvæður. Helmingur umsagnanna er hins vegar ekki jákvæður og skiptist í tvö horn, annars vegar eru þeir sem hafa lengi barist fyrir þessari leið, atvinnulífið, og svo hins vegar þeir á fjármagnsmarkaði sem vildu fá þessa fjárfestingarlánasjóði inn í bankana og helst fyrir ekki neitt.

Komum þá að því hvað það er sem hefur sett okkur þröngar skorður í því að við gætum staðið betur í þessari alþjóðlegu samkeppni á fjármagnsmarkaðnum og fjármagnssviðinu. Það er tvennt. Annars vegar: Ríkið er mjög umfangsmikill aðili á fjármagnsmarkaði, í kringum 62% sem ríkið er með við þessa breytingu, við lækkum okkur niður í 41%. Við erum með þeirri ákvörðun sem hér er verið að taka um fjárfestingarbankann að selja 49% af eignarhlut ríkisins í fjárfestingarbankanum. Það er það sem þurfti á að halda, að við drægjum úr hlut ríkisins á fjármagnsmarkaði. Færum frá hinni hefðbundnu fjárfestingarlánastarfsemi sem getur átt sér stað inni í bönkunum, getur líka átt sér stað inni í fjárfestingarbanka eins og þessum, yfir í verkefnafjármögnunina og áhættufjármögnunina. Það er það sem er að gerast nákvæmlega með þessu frv. hér. Það var á þessum tveimur sviðum sem við þurftum að bæta okkur til að bæta samkeppnisstöðuna. Minnka umsvif ríkisins í viðskiptabankaummhverfinu og í hefðbundinni fjárfestingarlánastarfsemi, færa áherslurnar yfir í nýsköpun og verkefnafjármögnun sem við erum nákvæmlega að gera með þessum tveimur málum. Og ég er sannfærður um það, þó að maður geti endalaust deilt um hvaða leið var best að þessu marki, þá erum við öll sammála um að við erum að stefna að því marki að bæta samkeppnisstöðu Íslands í hinum alþjóðlega samanburði og það er það sem þessi frumvörp munu leiða til.