Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Miðvikudaginn 23. apríl 1997, kl. 18:16:57 (5698)

1997-04-23 18:16:57# 121. lþ. 111.18 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., Frsm. 3. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur

[18:16]

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var nú hálffurðuleg ræða hjá hv. 3. þm. Vestf. sem eins og reyndar margir hálfumturnast þegar menn reyna að ræða byggðamál út frá einhverjum öðrum forsendum en þar séu bara lánveitingar. Ég dró mjög skýrt fram í minni ræðu og minni afstöðu að ég hef áhyggjur af landsbyggðinni. Hv. þm. veit það ósköp vel. Ég er hins vegar sannfærður um að þær aðferðir sem við höfum beitt hér undanfarin ár og áratugi, að vera raunverulega bara með eina stefnu gagnvart byggðamálum, þ.e. að setja upp lánasjóði mismunandi sterka, sérstaka sjóði á þessum vettvangi, hafa ekki skilað okkur árangri.

Hér er eina ferðina enn verið að fara þessa leið undir hatti nýsköpunar, þ.e. þessi eini milljarður, í stað þess að reyna að líta á byggðamálin í stærra samhengi. Það er það sem ég hefði viljað gera vegna þess að hin stefnan, viðbótarlánasjóðsstefnan, hefur gengið sér til húðar og er í reynd gjaldþrota. Þetta vita allir. Samt ber þingmaðurinn höfðinu við steininn eina ferðina enn. Ég held nefnilega að við þingmenn sem hvetjum til umhugsunar um þessi mál séum e.t.v. meiri vinir landsbyggðarinnar en þeir fulltrúar sem koma hér askvaðandi upp í ræðustól í hvert einasta skipti sem rætt er um byggðamál og heimta meiri og meiri lánveitingar. Reynslan hefur dæmt þessa stefnu út af borðinu. Það er tímabært, þó væri ekki nema landsbyggðarinnar vegna, að reyna að hugsa þessi mál út frá öðrum forsendum.