Samningur um bann við framleiðslu efnavopna

Mánudaginn 28. apríl 1997, kl. 18:03:16 (5719)

1997-04-28 18:03:16# 121. lþ. 113.1 fundur 593. mál: #A samningur um bann við framleiðslu efnavopna# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[18:03]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir sem hér hafa talað fagna því að þessi samningur skuli kominn hingað inn á borð alþingismanna til staðfestingar um leið og ég vona að við fáum á næstu árum betri og meiri tíma til þess að fara yfir samninga af þessu tagi því það hefur komið fram að það er ýmislegt sem fylgir. Það þarf að hafa eftirlit með því hvernig málum er háttað hér og við þurfum að taka þátt í alþjóðastarfi sem tengist þessum samningi. En aðalatriðið er auðvitað að við náum málinu í gegn í tíma og verðum meðal stofnaðila samningsins. Annað væri okkur heldur til lítils sóma.

Í þessu samhengi langar mig aðeins að rifja það upp að eins og kemur fram í grg. var gerður samningur árið 1925 sem bannaði notkun eiturefna, gass og sýkla í hernaði. Það gerðist í ljósi þeirra gríðarlegu hörmunga sem menn upplifðu í fyrri heimsstyrjöldinni þegar eiturgas var notað í stórum stíl og olli oft miklu líkamstjóni. Ekki endilega dauða heldur oft lömun og líkamstjóni sem varð þjóðunum dýrkeypt eftir styrjöldina. Engu að síður hafa eiturefni og eiturvopn verið notuð að minnsta kosti nokkrum sinnum síðan bæði í styrjöldum og í einstaka árásum. Og eflaust muna margir eftir fréttum af eiturefnaárás á byggðir Kúrda í Írak fyrir nokkrum árum. Þessi efni eru í notkun, því miður, og því auðvitað afar mikilvægt að alþjóðastofnanir og samtök þjóða reyni að ná tökum á þessum iðnaði. Hér er verið að ganga mun lengra en gert hefur verið hingað til og til orðið víðtækt samkomulag um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun eiturefna og eiturvopna, jafnframt því að með fylgir samkomulag um að eyða þessum vopnum sem hlýtur að vera býsna flókið mál.

Ég vil einnig nefna það sem hér hefur komið fram að sú stofnun sem mun væntanlega annast eftirlit með þessum málefnum hér á landi verður Hollustuvernd ríkisins. Mér er kunnugt um að innan þeirrar stofnunar er gríðarlegt vinnuálag, m.a. vegna EES-samningsins, og hún hefur verið stórlega fjársvelt eins og hefur komið fram í umræðum hér um fjárlög. Reyndar minnist ég þess að hér frammi hafa legið fyrirspurnir um stöðu þessarar stofnunar. Þar þarf því einnig að taka á, hæstv. forseti. En enn og aftur, ég fagna því að þessi samningur skuli kominn hér til staðfestingar.