Samningur um bann við framleiðslu efnavopna

Mánudaginn 28. apríl 1997, kl. 18:10:34 (5723)

1997-04-28 18:10:34# 121. lþ. 113.1 fundur 593. mál: #A samningur um bann við framleiðslu efnavopna# þál., Frsm. GHH
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[18:10]

Frsm. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil fagna þeirri samstöðu sem komið hefur í ljós í þessum umræðum um málið. Það kemur mér að vísu ekki á óvart eftir afgreiðslu utanrmn. á málinu.

Það er rétt að geta þess sem mér láðist í upphafi að auðvitað þarf að huga að lagabreytingum á Íslandi í kjölfarið á fullgildingu þessa samnings. Hér eru í gildi lög um eiturefni og hættuleg efni frá árinu 1988, minnir mig, sem koma til skoðunar í því sambandi og hugsanlega fleiri lög, til þess að gera Íslendingum kleift að standa við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem í þessum samningi felast, m.a. að því er varðar eftirlit og fleira af því tagi sem hv. þm. Svavar Gestsson vék lítillega að í sínu máli. Ég hygg að þessi mál séu þegar til skoðunar í Stjórnarráði Íslands og að þessar lagabreytingar muni sjá dagsins ljós í frumvarpsformi á Alþingi, væntanlega á næsta þingi.

Að því er varðar hins vegar vinnu utanrrn. í þessu máli, sem ýmsir hafa vakið hér athygli á, þá er nauðsynlegt að hafa það í huga að Íslendingar eru að gerast aðilar að fjöldamörgum alþjóðlegum samningum á mjög mörgum sviðum og þessu fylgir gríðarlegt vinnuálag í ráðuneytinu sem ekki er hægt að líta fram hjá eins og menn hafa reyndar rakið hér. Þannig að á því eru auðvitað skýringar að það hefur orðið dráttur á þessu máli. Hins vegar er það rétt sem menn hafa sagt að það er tilefni til þess að skoða sérstaklega hvort hægt er að bæta hér úr að því er varðar mannafla og sérfræðiaðstoð í ráðuneytinu í þessu efni. Ég held að það sé fyllsta ástæða til þess að huga að því eins og nokkrir ræðumanna hafa þegar vakið athygli á í umræðunum.