Stofnskrá Vestnorræna þingmannaráðsins

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 15:55:11 (5743)

1997-05-02 15:55:11# 121. lþ. 115.9 fundur 481. mál: #A stofnskrá Vestnorræna þingmannaráðsins# þál., Flm. ÁJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[15:55]

Flm. (Árni Johnsen):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurnýjun á stofnskrá Vestnorræna þingmannaráðsins.

Vestnorræna þingmannaráðið hefur að undanförnu unnið að breytingum á reglum og umhverfi til vinnu og starfs í ráðinu. Helstu skipulagsbreytingar eru þær að framvegis verður kosið í ráðið eftir styrkleikahlutföllum þingflokka eftir þeim reglum sem gilda í viðkomandi þingum. Fulltrúar á hverjum ársfundi verða 18, þ.e. sex frá hverju landi. Löndin skiptast á um að hafa formennsku og árlega verður lögð fram starfsáætlun og skýrsla. Löndin greiða framvegis árgjöld til starfseminnar auk þess sem sett verður á stofn skrifstofa ráðsins. Nú þegar hefur verið sett á stofn skrifstofa til eins árs miðað við að hún haldi áfram að þessum tillögum samþykktum.

Stofnskráin er einnig breytt að formi til og lögð er áhersla á aukin áhrif ráðsins á stjórnmálaumræðu um vestnorræn málefni. Þá verður heiti ráðsins samkvæmt tillögunni Vestnorræna ráðið í stað Vestnorræna þingmannaráðsins.

Samsvarandi tillaga og hér um ræðir er til afgreiðslu á þingum Grænlands og Færeyja, enda er tillagan niðurstaða deilda landanna þriggja og sérstaks samstarfshóps þingmanna frá löndunum þremur en lokafrágangur um endurnýjun á stofnskrá Vestnorræna þingmannaráðsins átti sér stað á fundi í Nuuk í febrúar sl. og þá var gengið endanlega frá þeirri tillögu sem hér er flutt.

Stofnskráin fyrir Vestnorræna ráðið skiptist í sjö kafla og 20 greinar. Í fyrsta lagi er kveðið á um það í 1. gr. að Vestnorræna ráðið skuli vera samstarfsaðili löggjafarþinganna á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Það má nefna atriði úr stofnskránni, til að mynda það sem ég hef vikið að um að þingmenn skulu kosnir eftir hlutfallsstyrk stjórnmálaflokkanna eftir gildandi reglum í hverju landi. Breytingar á skipan landsdeildanna skulu einnig fylgja reglum í viðkomandi landi.

Þá má geta um 7. gr. sem fjallar um að á hverjum aðalfundi ráðsins starfi þriggja manna forsætisnefnd. Í forsætisnefndinni eru auk formanns ráðsins einn fulltrúi tilnefndur af landsdeildum hvors hinna landanna. Forsætisnefndin hefur æðsta vald í málefnum ráðsins milli aðalfunda.

Þá nefni ég einnig 14. gr. IV. kafla sem er um að kostnaður við rekstur ráðsins skiptist þannig: Íslandi greiðir 50%, Færeyjar greiða 25% og Grænland greiðir 25%.

Að lokum vil ég geta 17. gr. í V. kafla um skrifstofu Vestnorræna ráðsins. Þar segir að ráðið ráði sér starfsmann til allt að fjögurra ára í senn. Starfsmaðurinn skal hafa aðsetur í einu af þingum landanna samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar og vinna með þeirri skrifstofu sem hefur með málefni Norðurlandaráðs og aðrar norrænar stofnanir í löndunum þremur. Gera skal samning við það þjóðþing, þar sem skrifstofan er, um skiptingu á útgjöldum til starfsemi aðalskrifstofu.

Þetta eru nokkur helstu áhersluatriðin í málinu sem hér um ræðir. Að lokinni umræðu er eðlilegt að þetta mál fari til meðferðar í utanrmn.