Stofnskrá Vestnorræna þingmannaráðsins

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 16:04:05 (5745)

1997-05-02 16:04:05# 121. lþ. 115.9 fundur 481. mál: #A stofnskrá Vestnorræna þingmannaráðsins# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[16:04]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér liggur fyrir tillaga um endurnýjun á stofnskrá Vestnorræna þingmannaráðsins. Ég tek undir það með Kristínu Ástgeirsdóttur að þarna hefur verið mjög gott samstarf. Ég hef átt sæti í Vestnorræna þingmannaráðinu en reyndar ekki sótt fundi þar seinni partinn í vetur þar sem reglurnar gera ráð fyrir því að ráðið sé skipað einum frá hverjum þingflokki og þó við höfum ekki kosið samkvæmt því enn þá eða nýjum reglum þá hef ég dregið mig í hlé af þessum nefndarfundum þar sem annar þingmaður þingflokks jafnaðarmanna, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, er varaformaður í Íslandsdeildinni.

Það var kosinn sérstakur starfshópur sem undirbjó breytingar á stofnskránni og ég er mjög sátt við hana í öllum meginatriðum. Það er einhugur um markmiðin, sem eru tilgreind í 2. gr., og hvernig menn ætli að ná þeim markmiðum og flest önnur atriði sem tilgrein eru hér í stofnskránni. En eins og kom fram hjá Kristínu Ástgeirsdóttur var ágreiningur um 4. gr. og breytingu á kosningu í ráðið. Það hefur komið fram á þessu kjörtímabili að það hefur verið sterk krafa um að breyta samsetningu þessa ráðs sem hefur haft sérstaklega lýðræðislegar tilnefningar, einn frá hverjum þingflokki óháð stærð. Auðvitað er ljóst að með því er ekki verið að endurspegla meirihlutavald eða stærð flokka heldur fyrst og fremst verið að tryggja að fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum komi að þessu samstarfi. Samstarfið er mikilvægt en þó er mikilvægi þess ekki undirstrikað af örum fundum vegna þess að það er fyrst og fremst einu sinni á ári sem ráðið hittist og þessir fulltrúar sem þá ráða ráðum sínum.

Eftir að ljóst varð að það var mikill vilji fyrir því að breyta þessu þannig að kosið yrði eftir hlutfallsstyrk stjórnmálaflokkanna þá blasti það nokkuð við að sú yrði raunin eftir að breytingar yrðu gerðar á stofnskránni. Ég stóð reyndar ekki heldur að þessari tillögu þegar hún kom fram í Vestmannaeyjum, ég greiddi ekki atkvæði gegn henni, ég var fyrst og fremst ósátt við vinnubrögð og hversu þessi afgreiðsla var keyrð hart fram. Sjálfri fannst mér að upplýsingar frá hinum löndunum, Færeyjum og Grænlandi, segðu okkur að þeir væru ekki beinlínis að fara inn í einhvers konar meirihlutahlutfallsstyrk þó svo að þessi grein hefði þessa orðanna hljóðan, nefnilega að Lögþing Færeyinga, Landsþing Grænlendinga og Alþingi Íslendinga kjósa úr hópi þingmanna sex fulltrúa og sex varamenn í ráðið. Þingmenn skulu kosnir eftir hlutfallsstyrk stjórnmálaflokkanna eftir gildandi reglum í hverju landi. Breytingar á skipan landsdeildanna skulu einnig fylgja reglum í viðkomandi landi. Það var alveg ljóst að Færeyingarnir sögðust ætla að halda áfram með þær reglur sem þeir hafa haft og sem hafa tryggt litlu flokkunum aðkomu að samstarfinu þó það sé með einhverri skiptingu innbyrðis á milli ára.

Ég ætla að endurtaka það sem ég sagði í Vestmannaeyjum í fyrra að það er ekki sjálfgefið að það sé betra ef kosið er samkvæmt hlutfallskosningu fremur en fulltrúar frá hverjum þingflokki. Þetta er hins vegar orðin tillagan hér og er í stofnskránni og ég stend hér sem flm. að þessari tillögu og þar með þessari 4. gr. en vil ekki láta hjá líða að koma inn á það hér að þrátt fyrir það greiddi ég þessari tillögu ekki atkvæði einmitt vegna þessa ágreinings. Ég vona hins vegar að það verði sátt um þá vinnureglu sem gerð hefur verið tillaga um í Íslandsdeildinni. Ég held að það væri farsælt. Það er nú einu sinni þannig að þegar á að breyta samsetningu í grundvallaratriðum er æskilegt að það gerist í sátt og þannig að allir geti við unað. Þetta samstarf er þess eðlis að ég er sjálf sannfærð um að vel er staðið að málum, alveg óháð því hvernig kosið er í Íslandsdeildina og hvaða hlutföll ráða þar ríkjum. Þess vegna mun ég leggja mikla áherslu á að sátt verði um að þeir þingflokkar sem nú eru á Alþingi eigi allir fulltrúa því það hefur þegar frá því við kusum síðast í Íslandsdeildina fækkað um einn þingflokk. Ég legg mikla áherslu á þetta og vona að um það náist sátt í Íslandsdeildinni.