Stofnun jafnréttismála fatlaðra

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 16:21:54 (5747)

1997-05-02 16:21:54# 121. lþ. 115.10 fundur 230. mál: #A Stofnun jafnréttismála fatlaðra# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[16:21]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu er á margan hátt mjög áhugaverð og jákvæð og full ástæða til að ræða með hvaða hætti við getum sem best tryggt að fatlaðir einstaklingar njóti réttar til jafns á við aðra í þjóðfélaginu. Kannski er ekki síst ástæða til þess að ræða það hvernig við stöndum best að því þegar fyrirhugað er að færa málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna sem mér hefur skilist að hagsmunasamtök fatlaðra hafi frekar hvatt til og verið hlynnt heldur en ekki.

Ég verð að viðurkenna að ég hef ákveðnar efasemdir um að búa til nýja stofnun og mér hefði fundist á margan hátt vera eðlilegra að Jafnréttisráð og það hlutverk sem Jafnréttisráð hefur væri víðtækara þannig að innan Jafnréttisráðs væri fjallað um jafnréttismál í víðum skilningi og þar með ætti sú stofnun hugsanlega heima undir forsrn. Eins og kom fram í máli hv. þm. sem talaði um blöndun eða samskipan mála í auknum mæli þannig að fatlaðir einstaklingar séu ekki settir á lokaðar sólarhringsstofnanir heldur sé um frjálsari búsetuúrræði að ræða, þá hef ég oft velt því fyrir mér og haft efasemdir um hvort rétt sé að búa til sérstakar stofnanir sem eigi að gæta hagsmuna þessa hóps umfram aðra og hafi það hlutverk sérstakt.

Ég velti því líka fyrir mér þegar ég sá þessa þáltill. hvort ekki sé eðlilegt hlutverk svæðisskrifstofu á hverjum stað að fylgjast með því að lögum um málefni fatlaðra sé framfylgt og eigi í raun að gefa um það skýrslu sem gæfi síðan heildaryfirsýn yfir það hvernig staðið er að málum. Þarna mætti síðan taka inn ýmsa aðra hópa, eins og réttindi langtímaveikra barna, og reyna að vinna þetta þannig að við séum að tala um jafnrétti einstaklings í víðum skilningi en ekki alltaf afmarkaða ákveðna hópa. Við höfum séð hér frv. um umboðsmann jafnréttismála, umboðsmann aldraðra, umboðsmaður barna er tekinn til starfa og umboðsmaður Alþingis.

Í mínum huga hefði e.t.v. verið eðlilegra að þarna væri um að ræða víðtækara hlutverk þeirra stofnana sem við höfum í dag heldur en að fara þá leið að búa til nýjar stofnanir. Hins vegar tek ég undir það að mjög mikil nauðsyn er á því að fylgjast með því að hægt sé að framfylgja lögum um málefni fatlaðra. Sérstaklega þar sem er, eins og ég sagði áðan, fyrirhugað að flytja þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna. Og ég undrast það reyndar að samtök fatlaðra skuli með eins afgerandi hætti telja þennan málaflokki betur kominn hjá sveitarfélögunum heldur en ríki, eins og mér hefur virst vera, vegna þess að það er ljóst að mjög mörg lítil sveitarfélög, smærri sveitarfélög vítt um landið, geta ekki sinnt þessum málum í dag, fylgt þeim lögum sem eru í gildi. Það er í raun og veru verið að færa til þeirra verkefni sem ég er hrædd um að verði þeim ofviða. Stærri sveitarfélögin ráða e.t.v. við það verkefni að sinna málefnum fatlaðra svo vel fari. Hins vegar er þar víða pottur brotinn og þarf ekki annað en nefna t.d. ferðamál fatlaðra í Reykjavík sem alls ekki eru í lagi. Það eru fleiri þættir í umhugsun um fatlaða hvað snertir hlutverk sveitarfélaga í dag sem ég tel að séu ekki í lagi. Og það er e.t.v. ekki rétt leið að leysa þau vandamál með því að setja nýjar stofnanir enn og aftur til þess að fjalla um þennan málaflokk. Mér fyndist eðlilegra að víkka út hlutverk þeirra stofnana sem við höfum í dag þannig að standa megi að þessu verkefni svo að vel fari. Það yrði þá kannski fyrst og fremst byggt á því að veita aukið fjármagn til þessara verkefna til þeirra stofnana sem nú starfa í dag og fjölga stöðugildum þar. Ég tel að það væri ódýrara úrræði svona við fyrstu skoðun en mundi ekki síður vera skilvirkt.