Stofnun jafnréttismála fatlaðra

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 16:39:38 (5749)

1997-05-02 16:39:38# 121. lþ. 115.10 fundur 230. mál: #A Stofnun jafnréttismála fatlaðra# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[16:39]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að málið er ekki flutt hér í tilefni af því að áætlað er að flytja málaflokkurinn til sveitarfélaganna. Hins vegar tel ég að kannski sé enn meiri nauðsyn á eftirliti eftir að málaflokkurinn hefur verið færður yfir til sveitarfélaganna. Ég er því hlynnt að sveitarfélögin taki að sér sem langflest hlutverk sem snerta fjölskylduna, daglegt líf hennar og afkomu. Ég er hlynnt því að það fari heim í hérað eða eins og maður segir, að færa valdið heim í hérað. Ég er hlynnt því. Hins vegar er það bara staðreynd sem við getum ekki horft fram hjá að í dag eru mörg sveitarfélög sem sinna þessu ekki. Þau sinna því ekki vegna þess að þau hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til þess. Viljinn er til staðar en fjármagnið vantar. Hér er verið að leggja til að það verði engu að síður til lítil, stór eða meðalstór ríkisstofnun sem á síðan að líta eftir því að sveitarfélögin framfylgi lögum. Svæðisskrifstofurnar hafa margar hverjar verkað þannig að þær hafa ekkert síður verið í raun --- þó þær hafi verið rekstraraðili --- eftirlitsaðili vegna þess að þær hafa farið út í sveitarfélögin til að benda á það sem betur má fara og til að tala máli fatlaðra einstaklinga sem þar hafa búið ef sveitarfélögin standa ekki nógu vel að sínu. Ég efast ekki um að þetta verður hugsanlega misjafnt eftir sveitarfélögum. Það er mismunur á því í dag hvernig þessum málum er sinnt og við þekkjum að hluti þeirra fólksflutninga sem hafa orðið hafa orðið af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins orsakast af því að þjónustan er til staðar hér. En hún er heldur ekkert sérstaklega góð. Hér er einstaklingum mismunað. Hér er til að mynda töluverður mismunur á því að vera fatlaður einstaklingur sem er örorkulífeyrisþegi eða fatlaður einstaklingur sem verður ellilífeyrisþegi. Það er töluvert mikill mismunur á því hvað varðar heimaaðhlynningu og aðra þjónustu. Þannig að það er mjög margt sem má bæta hjá sveitarfélögunum sem sjá um þessa þjónustu ekkert síður en hjá ríkinu. Við þurfum að halda vöku okkar ég tek undir það. Það er nauðsynlegt að hafa eftirlit með því að lögum sé framfylgt, lögum um málefni fatlaðra sem og öðrum lögum og réttindum annarra þeirra hópa sem verða undir í þjóðfélaginu meðal annars vegna þess að þeir hafa ekki bolmagn til þess að berjast fyrir sínum kjörum sjálfir. Fötluðum einstaklingum er líka mismunað og fatlaðir einstaklingar innan þessa hóps eins og t.d. geðfatlaðir fá ekki þá þjónustu sem þeir þyrftu. Þar erum við langt á eftir þjóðum sem við viljum bera okkur saman við þrátt fyrir þær miklu framfarir sem hafa orðið í þessum málaflokki á undanförnum árum.

Ég vil ítreka að ég hef ákveðnar efasemdir um öll þessi embætti sem lagt er til að verði stofnuð hér, þar með talda umboðsmann jafnréttismála, umboðsmann aldraðra og heyrst hefur líka um áhuga fyrir því að búa til embætti umboðsmanns fatlaðra. Við erum með starfandi umboðsmann barna og umboðsmann Alþingis. Upphaflega var það trú manna að umboðsmaður Alþingis væri það embætti umboðsmanns sem hefði þetta víðtæka eftirlitshlutverk og ef til vill væri ekki þörf á að til kæmu fleirri svipaðar eða sambærilegar stofnanir. Ég tek undir efni þáltill. og þessi verkefni sem talað er hér um að verði að sinna. Efasemdir mínar eru eingöngu þær hvort þetta sé rétta leiðin. Hvort við erum ekki í dag með stofnanir sem geta sinn þessu og hvort það er rétt leið að búa til ríkisstofnun sem yrði staðsett á einum stað --- vonandi ekki í Reykjavík, heldur einhvers staðar annars staðar á landinu --- sem ætti að taka yfir það hlutverk sem rekstraraðilinn hefur í dag, samanber svæðisskrifstofurnar sem margar hverjar virka sem mjög sterkur eftirlitsaðili sem betur fer. Ég þekki t.d. eina á Suðurlandi sem ég mundi gefa mjög góða einkunn og segi það vegna þess að ég hef verið sveitarstjórnarmaður og ég hef einnig verið aðstandandi fatlaðs einstaklings sem þar hefur þurft á aðstoð að halda. Ég tel að sú stofnun hafi staðið sig feikilega vel. Ég var að heimsækja stofnun á Norðurl. v. núna í þessari viku og ég tel líka að sú stofnun standi sig vel, en þar hefur verið um takmarkaða fjármuni að ræða. Það er líka spurning hvort ekki hefði átt að vera með stöðugildi þar sem starfaði til hliðar við svæðisskrifstofuna sem fylgdist með þessum málum gagnvart sveitarfélögum og ríki. En eftirlitsþörfin verður til staðar alveg jafnt og ekki síður þegar þetta hlutverk er komið út til hinna mörgu sveitarfélaga landsins.

[16:45]

Ég hef stundum hugsað um þá þróun sem er að verða að við erum að setja yfir á sveitarfélögin fleiri og fleiri verkefni sem við viljum sjá þar. Við viljum sjá þau þar vegna þess að við höfum trú á því að sveitarstjórnarmenn séu í nánari tengslum við umhverfi sitt en kannski þeir sem eru í landsmálapólitíkinni og ég tala nú ekki þá sem um eru í Stjórnarráðinu á hverjum tíma. Því viljum við sjá þessi verkefni færð yfir til sveitarfélaganna. En með þessu erum við líka að ýta á sameiningu sveitarfélaga vegna þess að minni sveitarfélögin geta ekki tekið við öllum þeim verkefnum sem við höfum sett á þau. Ég er hrædd um að ef fram færi úttekt á því hvernig t.d. sveitarfélögin í dag standa að framkvæmd laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þá sé þar víða pottur brotinn. Þarna erum við í raun og veru að taka þessa ákvörðun og ýta sveitarfélögunum til sameiningar sem hugsanlega getur verið gott en það getur líka haft það í för með sér sem maður hefur séð í þessum sameinuðu sveitarfélögum sem nú þegar eru til að þar hafa verkefni orðið út undan. Ég held því að það þurfi að fara varlega vegna þess að markmiðið hlýtur að vera að tryggja fötluðum einstaklingum jafnrétti. Ég býst við að flutningsmenn hafi nú farið yfir þetta miklu betur og víðara en ég hef gert bara með því að lesa þessa þingsályktun. En ég vil engu að síður velta upp þeim hugmyndum hvort ekki sé möguleiki á að koma þessu öðruvísi fyrir og þá og ekki síður hvort það sé rétt leið, þegar talað er um að flytja þessar svæðisskrifstofur, þ.e. að flytja málaflokkinn yfir til sveitarfélaganna og leggja svæðisskrifstofurnar niður. Er það leið til betri vegar? Ég efa það.