Tvöföldun Reykjanesbrautar

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 16:58:40 (5753)

1997-05-02 16:58:40# 121. lþ. 115.13 fundur 402. mál: #A tvöföldun Reykjanesbrautar# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[16:58]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Sumir dagar eru þess eðlis að á dagskrá koma mjög mörg mál sem einum og sama þingmanni eru hugstæð. Þannig dag er ég að upplifa í dag. Ég er búin að koma oft hér til að taka til máls um ólík mál.

Það mál sem hér er til umræðu er flutt af öllum þingmönnum Reykjaneskjördæmis. Það er mjög mikilvægt vegna þess að áður fyrr voru þingmenn ákveðinna flokka að flytja slíka tillögur af og þá mátti jafnvel segja að verið væri að gefa þá mynd að einhver einn stjórnmálaflokkur, jafnvel verandi í ríkisstjórn, vildi frekar láta vinna slíkt stórverkefni en aðrir. Sá tími er liðinn. Þessi þingmannahópur hefur skoðað afskaplega vel á síðustu árum aðgerðir í kjördæminu, hvað skuli njóta forgangs og hvernig skuli bregðast við með það takmarkaða vegafé sem kjördæmið hefur yfir að ráða.

[17:00]

Það kom fram hjá framsögumanni að þessi tillaga hefur verið flutt sex sinnum áður á Alþingi og það er svo sem ekki nein sérstök ástæða til að reikna með því að flutningur hennar nú verði til þess að tillagan verði samþykkt og að fjármagn fáist til þessara framkvæmda. Hins vegar er mjög mikilvægt að halda vakandi áherslunni á sérstöðu Reykjanesbrautar sem flm. tillögunnar fór svo ágætlega yfir hér áðan og þarf ekki að endurtaka. Ég verð þó að láta í ljós að ég tel afskaplega hæpið að þessi tvöföldum Reykjanesbrautar geti orðið á næstu árum ef það á að vinna hana af hefðbundnu vegafé. Það er mikil sérstaða í Reykjanesi. Sérstaðan felst í því að hver einasti vegur út frá höfuðborginni liggur í gegnum Reykjaneskjördæmi eðli málsins samkvæmt. Því er það verkefni á okkar sviði bæði að gott samráð verði milli sveitastjórna um vegarlagningu og að nýta takmarkað fjármagn á bestan hátt. Það er t.d. nýrri tíma fyrirbæri að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa samstarf sín á milli og skoða bæði skipulag og vegarlagningu og öll áform saman. Þegar veitt hefur verið sérstakt fjármagn svo sem í tengslum við kjarasamninga, til framkvæmda á höfuðborgarsvæði, þá hafa þessi sveitarfélög saman skoðað hvar forgangur eigi að vera og horfst í augu við að það að tekið er á einum stað þýði að menn verða að sættast á að bíða á öðrum.

Við höfum hins vegar oft rætt það okkar á milli, þingmannahópurinn sem heldur utan um þetta sértæka verkefni, að sjá til þess að það sé þannig farið með of lítið fjármagn að viðunandi sé fyrir alla þá sem þurfa að komast til og frá höfuðborginni. Ég get nefnt t.d. að þegar fallist hefur verið á það af hv. Alþingi að óháð fyrirtæki leggi jarðgöng milli landshluta, t.d. til Vesturlands og undir Hvalfjörð, þá gerist það auðvitað að leggja þarf tengivegi að jarðgöngunum. Tengivegir að Hvalfjarðargöngunum hérna megin tilheyra vegaframkvæmdum í Reykjaneskjördæmi. Ég er ekki viss um að margir sem mundu velta fyrir sér vegamálum og því sem við þurfum að gera hafi áttað sig á því. Þetta nefni ég bara til að draga fram að verkefnin eru mörg og að ákvörðun sem er tekin í raun og veru um útgjöld sem eiga að vera á annarra höndum gera að verkum að það verða útgjöld í vegaframkvæmdum á opinberum vettvangi.

Ég hef áður nefnt það að nú stöndum við saman þvert á alla flokka að því að vekja athygli á þörfinni á úrbótum á Reykjanesbraut. Ég vil líka árétta að þessi þingmannahópur hefur skoðað mjög vel hvernig hann nýti fjármagn sem hefur verið lagt til Reykjanesbrautarinnar og að það var mjög farsælt að tekin var sú pólitíska ákvörðun að taka lýsingu á Reykjanesbraut fram fyrir aðrar áformaðar framkvæmdir. Það er mat flestra sem að því máli hafa komið að það hafi verið góð ákvörðun og að við höfum þar verið að gera mjög mikilvægar úrbætur fyrir tiltölulega lítið fjármagn.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja um þetta mál. Þetta er mikilvægt mál. Ég veit ekki hvernig því mun reiða af en við munum að sjálfsögðu flytja það aftur og aftur til þess að vekja athygli á mikilvægi þessarar brautar sem tengir alla landsmenn við alþjóðaflugvöllinn fyrir utan hvaða gildi þessi braut hefur fyrir íbúa á Suðurnesjum.