Félagsleg aðstoð

Föstudaginn 02. maí 1997, kl. 17:53:13 (5759)

1997-05-02 17:53:13# 121. lþ. 115.16 fundur 425. mál: #A félagsleg aðstoð# (heimilisuppbót) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur

[17:53]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. flm. Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir að flytja þetta mál hér í þinginu. Ég held að hér sé verið að benda á eitt af mörgum málum sem finna má í tryggingakerfi okkar þar sem er mjög mikið óréttlæti á ferð. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir leggur hér til að heimilt verði að greiða einhleypingi, sem nýtur óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað, að auki heimilisuppbót 8.531 kr. á mánuði. Og einnig sé heimilt að greiða lífeyrisþega heimilisuppbót ef sýnt þykir að hann hafi ekki fjárhagslegt hagræði af sambýli við aðra heimilismenn. Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir tilgreindi hér nokkur átakanleg dæmi um fólk sem hefur verið svipt þessari heimilisuppbót vegna þess að það býr í sambýli við aðra þó að sannað sé að það hafi ekki fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Mér fannst þetta mjög átakanleg dæmi og vil tilgreina hér tvö þeirra, t.d. að öryrki sem eignast barn skuli missa heimilisuppbót sína, ég held að allir hljóti að játa að þarna er mikið óréttlæti á ferð. Og líka hvílík sárindi hljóta að vera fólgin í því þegar tveir öryrkjar vilja stofna saman heimili að þeir skuli báðir missa sína heimilisuppbót.

Ég held að það væri mjög mikilvægt að þetta frv. fengi skjótan framgang í hv. nefnd og yrði vísað inn í þann hóp sem situr nú að lagasmíð við endurskoðun á þessum lögum þannig að ekki verði nú einu sinni enn samþykkt lög frá Alþingi sem eru með slíkt innbyggt óréttlæti.

Við sem eigum því láni að fagna að vera heilbrigð og við fulla starfsorku gerum okkur oft ekki grein fyrir hvað það fólk má líða sem verður að búa við það að fá alla sína framfærslu frá samfélaginu. Og mér finnst mikilvægt að við reynum að hugsa þessi mál vel og gera allt sem í okkar valdi stendur til að þetta fólk geti lifað með fullri reisn, jafnvel þó að það eigi við mikla fötlun að stríða.