Skýrsla um innheimtu vanskilaskulda

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:06:20 (5764)

1997-05-05 15:06:20# 121. lþ. 116.92 fundur 311#B skýrsla um innheimtu vanskilaskulda# (aths. um störf þingsins), SJóh (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:06]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég bið hér um orðið um störf þingsins vegna skýrslu sem lögð var fram í síðustu viku frá dómsmrh. um gjaldtöku við innheimtu vanskilaskulda, samkvæmt beiðni sem var lögð fram fyrsta dag þingsins í haust af mér og öðrum hv. þingmönnum Alþb. Það er langt síðan mig tók að lengja eftir þessari skýrslu og ég hef verið að halda uppi spurnum um þessi störf og mér hefur verið sagt að málið væri mjög umfangsmikið og tímafrekt, það færi fram mikil heimildasöfnun. Ég gat ekki betur skilið en ráðuneytið væri allt undirlagt í vinnu út af þessari skýrslubeiðni.

Í síðustu viku fæddist reyndar fótur og var lögð fram umrædd skýrsla og þá kemur ýmislegt sérkennilegt í ljós. Það kemur í ljós að ráðuneytið naut fulltingis Lögmannafélags Íslands við gerð skýrslunnar, en þrátt fyrir það tókst ekki að afla neinna þeirra upplýsinga þannig að ráðuneytið gæti svarað lið 1 og 2 í skýrslubeiðninni, þ.e. hvort það væri munur á milli landa á hvaða stigi málsins innheimtustofnanir sendu mál til lögfræðiskrifstofu eða munur á gjaldtöku milli landa. Þá hafði verið leitað eftir uppýsingum frá Sambandi viðskiptabanka en gögn sem þaðan bárust reyndust merkt sem trúnaðarmál og voru því endursend.

Það reyndist ekki unnt að afla upplýsinga um stöðu mála í öðrum löndum þar sem ráðuneytið, að því er stendur í skýrslunni, stendur ekki í sambandi við neina þá aðila í öðrum löndum sem geta veitt slíkar upplýsingar. Það þarf nú einhvern veginn að bæta erlend samskipti í þessu ráðuneyti.

Að lokum kemur það fram að skýrslan mun einskorðast við almenna umfjöllun um það efni sem 3. tölul. skýrslubeiðninnar lýtur að. Ég varð fyrir afskaplega miklum vonbrigðum með þessa skýrslu, hæstv. forseti.