Skýrsla um innheimtu vanskilaskulda

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:08:53 (5765)

1997-05-05 15:08:53# 121. lþ. 116.92 fundur 311#B skýrsla um innheimtu vanskilaskulda# (aths. um störf þingsins), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:08]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Þegar óskað er eftir tilteknum upplýsingum í því formi að óskað er eftir skýrslu, þá takmarkast vitaskuld möguleikar viðkomandi ráðuneyta til þess að svara þeim fyrirspurnum með hliðsjón af þeim upplýsingum sem fyrir liggja. Í þessu tilviki var einfaldlega ljóst að ekkert af þeim upplýsingum sem óskað var eftir að kæmu fram í skýrsluni heyrðu undir dómsmrn. eða voru í fórum þess. Þess vegna þurfti ráðuneytið að leita á aðra bæi eftir þeim upplýsingum. Við fengum upplýsingar frá Lögmannafélaginu eins og hv. þm. benti á. Upplýsingar sem við fengum frá Samtökum viðskiptabanka voru merktar sem trúnaðarmál og við töldum okkur ekki hafa neitt við trúnaðargögn að gera frá Sambandi viðskiptabanka og endursendum þau. Við erum ekki í því sambandi við erlenda aðila að geta krafið þá um upplýsingar um hvernig þeim málum er fyrir komið sem var verið að spyrjast fyrir um og þess vegna eru svörin takmörkuð við þær upplýsingar sem fyrir hendi voru og unnt var að afla með eðlilegum hætti.