Hvalveiðar

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:21:53 (5772)

1997-05-05 15:21:53# 121. lþ. 116.1 fundur 302#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:21]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það verður engin ákvörðun um það hvort menn gangi í Alþjóðahvalveiðiráðið tekin á ríkisstjórnarfundi á miðvikudag. Það verður fjallað um þá skýrslu sem unnin hefur verið af þeirri nefnd sem um það mál fjallaði og út af fyrir sig er vikið að því máli í þeirri skýrslu, en ég ætla ekki að fjalla um það nánar hér.

Það lágu fyrir hins vegar í þeim gögnum sem ríkisstjórnin þáverandi fékk til sín upplýsingar um að menn teldu nánast öruggt að segðu Íslendingar sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, þá mundu aðrar þjóðir gera það. Það var fullyrt við ríkisstjórnina, og ég hygg að hv. þm. viti það, að færum við úr Alþjóðahvalveiðiráðinu, þá mundu Norðmenn gera það árið eftir og síðan fleiri og Alþjóðahvalveiðiráðið yrði algjörlega óstarfhæft. Þetta var fullyrt í eyru ríkisstjórnarinnar og af nefndarmönnum sem líka störfuðu að því máli þá.

Þetta hefur ekki reynst rétt þannig að ein meginforsendan fyrir úrsögninni úr Alþjóðahvalveiðiráðinu reyndist röng. Það hljóta menn náttúrlega að vega og meta. Síðan kemur það upp úr kafinu, eins og hæstv. sjútvrh. hefur upplýst, að það er engin leið til þess að selja þessar afurðir nema við séum í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Eini kaupandinn neitar að kaupa. Það hlýtur að vera innlegg í málið hvort við ætlum að fara í þá styrjöld sem við þurfum að fara ef ljóst er að menn geta fengið markað fyrir vörurnar eða ekki. Það hlýtur að vera innlegg í málið býst ég við. Og auðvitað þurfa menn að skoða það mál mjög rækilega.