Hvalveiðar

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:27:35 (5776)

1997-05-05 15:27:35# 121. lþ. 116.1 fundur 303#B hvalveiðar# (óundirbúin fsp.), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:27]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt að rifja það upp í þessu sambandi í framhaldi af þeirri skýrslu sem hv. fyrirspyrjandi vitnaði til, að það gerðist að við stóðum í talsverðum átökum við aðrar þjóðir varðandi fiskveiðihagsmuni, í deilum við Norðmenn, mjög flóknum samningum um fiskveiðiréttindi á Reykjaneshrygg og inni á NAFO-svæðinu ásamt því að við vorum að berjast fyrir því að ná fram okkar rétti á úthafsveiðiráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Ég lýsti því yfir hér í þinginu og á öðrum vettvangi að við teldum og ég teldi eðlilegt að láta hvalveiðimálið víkja um sinn og bíða meðan við værum að sjá fyrir endann á þessum umfangsmiklu verkefnum. Ástæðan var einfaldlega sú að ég taldi að við mættum ekki vera með of mörg járn í eldinum í einu til þess að vinna að réttarstöðu okkar í þessu efni á erlendum vettvangi þannig að það var ástæðan fyrir því og fyrir henni hefur verið gerð grein hér á hinu háa Alþingi.

Síðan var settur á fót fyrir nokkrum missirum nýr starfshópur til að leggja á ráðin um það hvernig eðlilegast væri að taka málið upp að nýju. Niðurstaða hans hefur legið fyrir núna um nokkurra vikna skeið, hefur verið lögð fyrir ríkisstjórn og verið þar til umfjöllunar. Og eins og hér kom fram í máli hæstv. forsrh. er ráðgert að ríkisstjórnin ljúki umfjöllun um þá skýrslu núna á miðvikudaginn kemur og því hefur margsinnis verið lýst yfir af minni hálfu og annarra, alveg frá þeim degi er við gengum úr hvalveiðiráðinu að það kæmi til álita að ganga þangað inn aftur ef það mætti verða til þess að styrkja stöðu okkar í þessu efni.