Staða sjávarþorpa í óbreyttu kvótakerfi

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:42:15 (5787)

1997-05-05 15:42:15# 121. lþ. 116.1 fundur 305#B staða sjávarþorpa í óbreyttu kvótakerfi# (óundirbúin fsp.), KHG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:42]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ber fram fyrirspurn til hæstv. forsrh. um stöðu sjávarþorpa í óbreyttu kvótakerfi. Ég vísa þar til atvinnuástandsins sem verið hefur undanfarna mánuði í einu slíku sjávarplássi, Þingeyri vestur á fjörðum og alþjóð er kunnugt um og mikil umfjöllun hefur verið um síðustu daga í kjölfar bréfs sem embættismenn þar á staðnum sendu hæstv. forsrh. og lýsir hvernig ástandið er orðið eftir slíkt atvinnuástand í marga mánuði.

Það væri fróðlegt að fá frá hæstv. forsrh. upplýsingar um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þess að bæta atvinnuástandið á þeim stað.

En ég kveð mér aðallega hljóðs til að ræða málið í heild sinni í ljósi þess að þessi litlu sjávarpláss hringinn í kringum landið halda ekki velli í núverandi kvótakerfi eins og kunnugt er og allar upplýsingar sem menn hafa dregið saman um það efni varpa skýru ljósi á að í þessum þorpum hafa hvað helst verið erfiðleikar á þeim tímum sem núverandi kvótakerfi hefur verið í gildi.

Annars vegar eru erfiðleikarnir vegna þess að kvótakerfið leiðir það af sér að stofnkostnaður er mun hærri en áður við að koma sér upp skipi og veiðileyfi og hins vegar að kerfið sviptir þessi sjávarpláss þeim forgangi sem þau hafa ævinlega haft af nærliggjandi miðum. Í ljósi þessara annmarka kerfisins og afleiðingar þeirra í þessum fámennu sjávarplássum hringinn í kringum landið, spyr ég hæstv. forsrh. sem fer með þessi mál sem byggðamálaráðherra: Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til að breyta og bæta stöðu sjávarþorpa í landinu frá því sem nú er við óbreytt kvótakerfi?