Staða sjávarþorpa í óbreyttu kvótakerfi

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:44:29 (5788)

1997-05-05 15:44:29# 121. lþ. 116.1 fundur 305#B staða sjávarþorpa í óbreyttu kvótakerfi# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:44]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ekki veit ég hvort þessi dagskrárliður sé vel til þess fallinn að ræða þetta mál í heild sinni eins og hv. þm. sagði. Ég býst við því að þetta mál sé nú þannig vaxið að við þyrftum meiri tíma til að ræða það í heild sinni en þennan stutta fyrirspurnatíma um óundirbúnar fyrirspurnir.

Það er líka stundum kostur hvað við erum fljót að gleyma. Skyldi það nú ekki hafa verið þannig hér örfáum árum fyrir daga kvótakerfisins að byggðirnir úti um landið hafi verið að lenda í endalausum erfiðleikum vegna stöðu sjávarútvegsmála og menn væru að grípa til margvíslegra ráðstafna, Byggðastofnun, ríkisvaldið, þingið og aðrir aðilar, til þess að bregðast við í þeim efnum? Erum við virkilega búin að gleyma öllum þeim dæmum? Ég hygg ekki. Það er þannig að dæmin upp á síðkastið hafa verið færri.

Það er hins vegar rétt að í útvarpsviðtali á dögunum, þegar rætt var um þetta sérstaka mál á Þingeyri, þá nefndi ég að út af fyrir sig væri hætta á að slíkar aðstæður sem þar hefðu skapast gætu skapast víða, en það er ekki hægt að saka kvótakerfið eitt og sér um það efni og ekkert annað kerfi sem ekki hefur þá enn þá meiri annmarka af öðrum ástæðum væri líklegra til þess að vera byggðalega vænlegra heldur en þetta kerfi í sjálfu sér. Það var auðvitað ekki þetta ágæta bréf frá þessum embættismönnum sem vakti menn til lífsins því að málið hafði verið til meðferðar af hálfu ríkisvaldsins en ekki síst af hálfu Byggðastofnunar og ég vænti þess að það skref sem vonandi verður stigið í þessari viku gefi þessu byggðarlagi ákveðna möguleika, án þess að það sé hollt að vera að gefa of miklar væntingar eða vonir.

Við vitum að allmörg sveitarfélög um landið eiga í vissum erfiðleikum núna. Ég ætla ekki að fara að tilgreina þau hér á þessum stutta tíma. Þar þarf auðvitað að taka á hverju einstöku máli, en meginatriðið er þó að skapa almenn jákvæð skilyrði fyrir rekstur eins og þennan. Það er það fyrirkomulag og sá jarðvegur sem þessum fyrirtækjum er hollust.