Kennsla í forritun og tölvugreinum

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:49:46 (5791)

1997-05-05 15:49:46# 121. lþ. 116.1 fundur 306#B kennsla í forritun og tölvugreinum# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:49]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég held m.a. að sá aukni áhugi sem kemur fram á þeim sérfræðingum sem hv. þm. vék að megi rekja til stefnu ríkisstjórnarinnar í upplýsingatæknimálum og að öllum sé ljóst að ríkisstjórnin hefur mjög markvisst unnið að því að efla þessa grein iðnaðar og fræðslumála sem lýtur að tölvunotkun og tölvufræðslu og nýtingu upplýsingatækninnar.

Að því er varðar Háskóla Íslands sérstaklega, þá hef ég þá stefnu að beita mér ekki fyrir því að ein deild fái fjárveitingar umfram aðra. Það er málefni háskólans sjálfs að taka ákvarðanir um það og gera upp á milli deilda eða forgangsraða innan sinna vébanda.

Að því er varðar tölvuháskóla á vegum Verslunarskólans, þá standa yfir viðræður núna á milli menntmrn. og Verslunarskólans um fjárveitingar til þess skóla. Ég bind vonir við það að Alþingi afgreiði frv. til laga um háskóla sem mun auðvelda okkur að takast á við það verkefni. Það mun einnig að mínu mati auðvelda Háskóla Íslands að takast á við það verkefni sem hann þarf að vinna varðandi tölvunarfræði og einstakar námsgreinar því hann getur þá tekið skipulegri ákvarðanir en núverandi löggjöf leyfir.

En ég mun ekki beita mér eða hafa afskipti af innri málefnum háskólans og forgangsraða málum þar. Það er á hans verksviði. Að vísu bárust mér erindi varðandi tölvunarfræði þar fyrir nokkrum missirum og ég svaraði þeim jákvætt fyrir mitt leyti en ég veit ekki til þess að háskólinn hafi síðan aðhafst frekar í því máli.