Einangrunarstöðin í Hrísey

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:57:42 (5796)

1997-05-05 15:57:42# 121. lþ. 116.1 fundur 307#B einangrunarstöðin í Hrísey# (óundirbúin fsp.), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:57]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. landbrh. fyrir svörin og sérstaklega fagna því að hann skuli taka undir það að til greina komi að flytja einangrunarstöðina frá Hrísey eða a.m.k. að heimila hana annars staðar. Auðvitað snýst þetta um vilja. Spurningin er hvort mönnum finnist ekki tímabært að breyta því fyrirkomulagi sem ríkt hefur um áratuga skeið og er að mörgu leyti orðið úrelt. Það hlýtur að vera tímaskekkja að halda einangruninni svo fjarri aðalþjónustusvæðinu sem vissulega er hér á suðvesturhorninu þannig að það er spurning hvort ekki þurfi jafnvel að vera fleiri en ein einangrunarstöð.

Rökin fyrir þessu, eins og ég hef áður nefnt, eru kostnaðarleg, þau eru sjónarmið dýraverndunar og þau eru tilfinningaleg, einkum hvað börn snertir og ég fagna því að ráðherra skuli taka undir að það skuli koma til greina að rjúfa þessa einangrun eða einokun skulum við segja. Mér er kunnugt um að ýmsir aðilar hafa hug á að koma upp stöð nálægt Keflavíkurflugvelli, enda koma flest gæludýr þar til landsins.