Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 16:06:27 (5802)

1997-05-05 16:06:27# 121. lþ. 116.2 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., ÁE (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:06]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Því miður náði tillaga þingflokks jafnaðarmanna og annarra um að vinna málið betur ekki fram að ganga. Þetta mál er núna á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Við styðjum þessa brtt. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og aðrar tillögur frá honum. Þær eru til bóta. Við munum hins vegar ekki greiða atkvæði við einstakar greinar þessa frv. eða brtt. meiri hlutans, þó með einni mikilvægri undantekningu.

Við styðjum 2. og 3. gr. frv. þar sem hlutverk Nýsköpunarsjóðs er skilgreint og starfssvið nokkuð afmarkað. Við styðjum uppbyggingu og vöxt íslensks atvinnulífs og viljum styðja þann ramma sem kemur fram í 2. og 3. gr. frv. Efling nýsköpunar og einkum á landsbyggðinni er brýnt verkefni að okkar mati, en það hefði þurft að búa öllu dæminu betri ramma en hér er gert. Við viljum að meginafstaða okkar gagnvart hugmyndafræðinni komi fram í atkvæðagreiðslu við þessar tvær greinar sem ég nefndi. Við munum styðja þær brtt. sem meiri hlutinn flytur við 2. gr. Að öðru leyti munum við ekki greiða atkvæði við einstakar tillögur í þessu frv. og sitja hjá við lokaafgreiðslu þessa máls.