Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 16:13:18 (5806)

1997-05-05 16:13:18# 121. lþ. 116.2 fundur 407. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# frv., SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[16:13]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum og áratugum hafa verið settir upp fjölmargir sjóðir til að styðja við þróun í atvinnulífinu af margvíslegu tagi og gallinn á þeim sjóðum hefur ekki verið grunnhugsunin á bak við þá heldur sá að þeir hafa verið settir í hendurnar á stjórnum sem hafa ekki haft aðstöðu til þess að gæta heildarsjónarmiða, faglegra heildarsjónarmiða. Hér er gerð tillaga um að framlengja þetta gamla og úrelta kerfi eins og fram kom í atkvæðaskýringu hér áðan.

Ég er þeirrar skoðunar að með þessu séu menn að gera tillögu um að staðfesta klíkuveldi stjórnarflokkanna yfir milljarðasjóðum og þar með er hætta á að sjóðurinn verði eyðilagður fyrst og fremst af þeim ástæðum hvernig stjórninni yrði raðað saman samkvæmt þessari grein. Af þeim ástæðum herra forseti, greiði ég atkvæði gegn tillögunni eins og hún liggur fyrir.