Almenningsbókasöfn

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 13:35:14 (5874)

1997-05-06 13:35:14# 121. lþ. 117.1 fundur 238. mál: #A almenningsbókasöfn# (heildarlög) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[13:35]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir til 3. umr. frv. til laga um almenningsbókasöfn. Þegar frv. var tekið fyrir í hv. menntmn. skrifaði ég undir nál. með fyrirvara og ætla ég að fara um það nokkrum orðum hverjum augum ég lít efni þessa frv.

Í 1. gr. er tekið fram að almenningsbókasöfn séu upp\-lýs\-inga- og menningarstofnanir og hlutverk þeirra að veita fólki, bæði börnum og fullorðnum, greiðan aðgang að fjölbreyttum bókakosti og öllum miðlunargögnum, þar á meðal tölvubúnaði og upplýsingum á tölvutæku formi. Markmið þeirra skal vera að efla símenntun og íslenska tungu og örva lestraráhuga. Þetta eru göfug og góð markmið og samkvæmt þeim markmiðum starfa nú þegar glæsileg bókasöfn víða á landinu og þyrftu að vera enn þá fleiri. Ég tel að bókasöfn séu einhverjar mikilsverðustu stofnanir sem reknar eru í hverju sveitarfélagi og að vanda þurfi sérstaklega til þeirra. Þau eiga að vera meira en geymslustaður fyrir bækur, þau eiga að vera staður þar sem er miðlað menningu, þar sem eru listsýningar, þar sem eru haldnir fundir um menningarleg efni og þar sem fólk kemur til þess að leita sér upplýsinga um hin óskyldustu mál í gegnum tölvukerfi. Í því skyni þurfa að starfa á hverju bókasafni ákaflega hæfir aðilar sem geta veitt almenningi leiðsögn í þessum efnum.

Í 8. gr. þessa lagafrv. er tiltekið að forstöðumaður almenningsbókasafns skuli, ef þess er kostur, hafa lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði eða jafngildu námi. Það eru einkum þessi orð ,,eða jafngildu námi`` sem ég hef gert fyrirvara við. Mér finnst þetta opna ákvæði um menntun fyrir forstöðumenn almenningsbókasafna óhæfilega mikið, miklu meira en var í áðurgildandi lögum og var þó kannski frekar nauðsyn að herða á heldur en hitt. Ég held að það sé afar mikilsvert ef bókasöfn eiga að starfa eftir þeim metnaðarfullu markmiðum sem eru sett fram í 1. gr. þessa lagafrv. að þau hafi á að skipa fólki sem einmitt hefur þessa menntun sem til þarf, þ.e. hefur lokið prófi í bókasafns- og upplýsingafræði. Það kann að vera að í einstökum tilvikum fáist ekki þó auglýst sé fólk sem hefur þessa menntun til að gegna starfinu og þá finnst mér í lagi að hafa í lögum ákvæði um að ráða megi tímabundið fólk sem hefur ekki þessa menntun. En ég held að það verði að vera alveg skýrt að ekki sé hægt að ganga þannig frá málum til frambúðar. Menntun í bókasafns- og upplýsingafræði er löggild og ekki hægt að ganga fram hjá henni með þessum hætti sem mér finnst jafnvel vera lagt til hér. Við eigum afburðadeild í Háskóla Íslands sem menntar bókasafnsfræðinga og ég sé ekki að við höfum neina ástæðu til að setja þetta ákvæði eða þessa opnun eins og lagt er til í frv.

Í 9. gr. frv. er lagt til að framlög til almenningsbókasafna skuli ákveðin í árlegri fjárhagsáætlun sérhvers sveitarfélags en ekki er lengur gert ráð fyrir því að í lögunum séu ákvæði um lágmarksframlög til bókasafna. Ég tel að þetta ákvæði eins og það stendur í frv. geti orðið hættulegt litlum söfnum og ég er ekki ein um að hafa áhyggjur af þessu því fjöldamargar umsagnir hafa borist þar sem virkilega er tekið undir það að hingað til hafi það reynst litlu söfnunum erfitt að sækja meira að segja þessi lágmarksframlög hvað þá ef þau hafa ekki einu sinni það til að standa á.

Í 13. gr. frv. er ákvæði um að menntmrh. skipi ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna. Ég hef ekki nema gott eitt um það að segja en mér hefði þótt áríðandi að kveðið væri nánar á um hvernig á að koma í framkvæmd því sem þessi ráðgjafarnefnd ályktar. Það er ekki gert ráð fyrir að á vegum þessarar nefndar starfi neinn starfsmaður. Og þar sem að þessum lögum samþykktum og einnig lögum um starfsmenn ríkisins, starfsmannabandorminum svokallaða sem liggur fyrir Alþingi, er gert ráð fyrir að embætti bókafulltrúa verði lagt niður þá finnst mér þetta ákvæði vægast sagt mjög opið og erfitt að sjá í hvaða átt þetta getur farið í framkvæmd ráðuneytisins. Mér finnst þurfa þarna nánari ákvæði um fyrirkomulag.

Í frv. er ákvæði til bráðabirgða um að ríkissjóður leggi fram 4 millj. kr. á ári til að stuðla að því að almenningsbókasöfn verði fær um að bjóða þjónustu sem styðst við nútímaupplýsingatækni. Þegar fjárlög voru lögð fyrir í haust stóð í þeim að 20 millj. kr. væru áætlaðar í þetta verkefni og hlýnaði þá ýmsum um hjartarætur, þar á meðal mér, og fannst þetta myndarlegt en þá kom í ljós að þetta voru 4 millj. kr. á ári í fimm ár. Þegar maður hugsar um öll þau almenningsbókasöfn sem starfa í landinu og allt sem þarf að gera í þeim til að almenningsbókasöfn verði fær um að bjóða þjónustu sem styðst við nútímaupplýsingatækni þá finnst mér þetta ansi litlir peningar jafnvel þó gert verði ráð fyrir að eitthvað komi á móti frá sveitarfélögunum. Ég hefði kosið að þarna væri gert ráð fyrir hærri upphæð.