Undirboð í vikurútflutningi

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 13:52:16 (5876)

1997-05-06 13:52:16# 121. lþ. 117.95 fundur 318#B undirboð í vikurútflutningi# (umræður utan dagskrár), iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[13:52]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Johnsen sendi mér í morgun þær spurningar sem hann ber fram við utandagskrárumræðuna þannig að ég ætla að snúa mér beint að því að svara þeim spurningum sem eru nokkuð viðamiklar.

Í fyrsta lagi spyr hv. þm.: Er það eðlilegt að Íslenskir aðalverktakar reyni að sölsa undir sig vikurviðskipti íslensks einkafyrirtækis með undirboðum í Þýskalandi? Það er vissulega umhugsunarvert með hvaða hætti fyrirtækið Lava hf., sem er dótturfyrirtæki Íslenskra aðalverktaka, hefur kynnt sölu á vikri á þýskum markaði í gegnum fyrirtæki sem heitir GER sem mun vera dótturfyrirtæki Íslenskra aðalverktaka og Ármannsfells hf. Þetta er umhugsunarvert af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi er það umhugsunarvert vegna þess að íslenska ríkið á 52% í Íslenskum aðalverktökum. Það hlýtur að vera stílbrot ef rétt reynist að stjórn Íslenskra aðalverktaka reyni að ryðja dótturfyrirtæki sínu leið inn á viðkvæman markað erlendis og grafa undan afkomu annarra íslenskra fyrirtækja sem af veikum mætti hafa unnið þar árum saman að markaðsuppbyggingu.

Það er einnig umhugsunarvert að málinu skuli vera stillt upp á þann hátt að að baki fyrirtækinu standi, auk tveggja öflugustu byggingarfyrirtækja landsins, helmingseign íslenska ríkisins. Þetta er umhugsunarvert vegna þess að vikurkaupendur í Þýskalandi eru meðvitaðir um að vinnsla og nýting vikurs er til gagngerrar endurskoðunar hér á landi. Þeir vita einnig að vilyrði hafa ekki verið gefin fyrir veitingu nýrra leyfa né heldur endurnýjun gildandi vinnsluleyfa en bæði þau leyfi sem núna eru í gildi renna út á miðju næsta ári. Svo svarið sé skýrt við spurningunni, þá tel ég þetta óeðlilegt, enda veit ég að hæstv. utanrrh. hefur gert athugasemdir við þessa starfsemi fyrirtækisins eftir að kvartanir bárust til hans um þetta starf. Ég get þá um leið svarað þriðju spurningu hv. þm., hvort íslensk stjórnvöld muni hefja útflutning á vikri frá Íslandi með tilstuðlan Íslenskra aðalverktaka. Það munum við að sjálfsögðu ekki gera. Við verðum að hafa í huga að til stendur að breyta fyrirtækinu Íslenskum aðalverktökum í almenningshlutafélag og þegar það er afstaðið getur það fyrirtæki, eins og hvert annað fyrirtæki á markaði, hafið þá starfsemi sem hér um ræðir.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Hefur iðnrn. ekki lagt höfuðáherslu á hámörkun afurðaverðs vikurs? Jú, það er rétt. Iðnrn. hefur sífellt í skoðun á hvern hátt hægt sé að vinna byggingarvörur úr íslenskum vikri sem um margt hefur einstaka efniseiginleika sökum léttleika síns og einangrunargildis. Rannsóknaverkefni hafa verið unnin á þessu sviði í samvinnu við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og fleiri aðila. Hins vegar hefur nýleg úttekt á þessu sviði því miður sýnt að enn er nokkuð í land með að okkur takist að fara út í fullvinnslu þessara afurða hér. Við verðum að hafa í huga að þarna er um takmarkaða auðlind að ræða og með hrávöruútflutningi munum við mjög fljótlega ganga á þá auðlind.

Í fjórða lagi spyr hv. þm.: Hafa Íslenskir aðalverktakar fengið námuleyfi hjá iðnrn.? Svarið við því er nei. Hvorki fyrirtækið Lava hf. né eigendur þess hafa fengið vinnsluleyfi og í raun ekki sótt um það formlega. Okkur er hins vegar kunnugt um að í bígerð muni vera umsókn um slíkt en hún liggur ekki fyrir og því hefur engin umræða átt sér stað um það í iðnrn. hvort slíkt leyfi skuli veitt og þá með hvaða hætti. Það verð ég að segja hér að mér er hulin ráðgáta hversu djarflega hér er teflt af hálfu fyrirtækisins. Það verður að teljast með ólíkindum að fyrirtæki sem á engan rétt og hefur engan rétt til vikurnáms sé að reyna að selja afurð sem það hefur ekki í hendi á erlendum mörkuðum. Mér hefur borist afrit af bréfi þýska dótturfyrirtækisins GER og þar kemur fram að boðið er upp á langtímasamning þar sem stefnt er að 50--100 þús. tonna árlegri sölu, en þetta svarar til meira en þriðjungs alls útflutnings á vikri ef miðað er við metárið 1994 en það ár voru 224 þús. tonn flutt út af vikri.

Ég held að ég geti svarað, af því að tíminn er orðinn knappur, 5. og 6. spurningu hv. þm., hvort hætta sé á því að Jarðefnaiðnaður, og þá um leið Vikurvörur hf. sem jafnframt er með vinnsluleyfi, missi sín leyfi út af því sem þarna hefur gerst. Það eru bara tvö námuleyfi sem eru í gildi og gilda fram á næsta ár og það er leyfi sem Jarðefnaiðnaður og Vikurvörur hafa og þau leyfi eru bæði bundin við Heklusvæðið. Hvorugt þessara fyrirtækja hefur fengið nein vilyrði, og það hefur legið fyrir frá upphafi, fyrir því að þessi leyfi verði endurnýjuð. Það verður tekið til skoðunar þegar þar að kemur. Hins vegar er alveg ljóst að þessi fyrirtæki hafa sterkari stöðu en öll önnur fyrirtæki miðað við reynsluna, markaðssamböndin, getuna og þekkinguna til þess að takast á við þetta verkefni.