Undirboð í vikurútflutningi

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 14:01:01 (5878)

1997-05-06 14:01:01# 121. lþ. 117.95 fundur 318#B undirboð í vikurútflutningi# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:01]

Sturla Böðvarsson:

Hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að taka til umræðu það málefni sem hér er tekið upp utan dagskrár. Ef til vill til þess að skýra það eins og hæstv. iðnrh. hefur gert. Ég vænti þess að í framhaldi af þeim svörum megi skoða þetta mál betur.

Vegna þessarar umræðu vil ég segja að mörg undanfarin ár hefur verið gerð tilraun til þess að nýta þessa auðlind sem vikurinn er. Auðvitað hefði verið æskilegast að nýta vikurinn með því að framleiða byggingarhluta eða nýta hann til framleiðslu innan lands í stað þess að flytja hann út sem hráefni. Það væri auðvitað æskilegasti kosturinn. Niðurstaðan hefur hins vegar verið sú að hér hafa verið fyrirtæki sem hafa verið frumkvöðlar í þessum efnum og það ber auðvitað að gæta þess að hagsmunir þeirra séu ekki skaðaðir. Nú þekki ég ekki aðdraganda þess sem hv. málshefjandi nefndi. En ég veit hins vegar að Íslenskir aðalverktakar komu að verki í samstarfi við aðila á Snæfellsnesi og hafa verið að undirbúa vikurvinnslu þar. Þar höfðu í það minnsta tvö fyrirtæki stundað vikurútflutning og nýtt þann vikur sem er úr námum við Snæfellsjökul. Það hafa verið bundnar miklar vonir við samstarf þessara aðila. Íslenskir aðalverktakar hafa lagt sig mjög fram um að reyna að standa vel að verki við að nýta þessa auðlind sem er vikurinn við Snæfellsjökul. Ég vænti þess að það geti orðið atvinnulífinu á Snæfellsnesi til styrktar á sama hátt og vikurútflutningur hefur orðið atvinnulífi á Suðurlandi til styrktar. En aðalatriðið er auðvitað að bæði sé tryggt að nauðsynleg leyfi liggi fyrir um nýtingu þessara náma og eins að hér sé ekki um að ræða óeðlileg undirboð eins og ég heyrði að nefnt var hér.