Rekstur Áburðarverksmiðjunnar

Þriðjudaginn 06. maí 1997, kl. 14:13:42 (5883)

1997-05-06 14:13:42# 121. lþ. 117.96 fundur 310#B rekstur Áburðarverksmiðjunnar# (umræður utan dagskrár), Flm. SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[14:13]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að ræða hér málefni Áburðarverksmiðjunnar utan dagskrár. Má segja að ekki sé seinna vænna vegna þess að miðað við hvernig horfur eru núna verður Áburðarverksmiðjunni lokað. Staðreyndin er sú að það hefur verið haldið þannig á málum að flest bendir til þess að helst eigi að loka Áburðarverksmiðjunni. Samt er það þannig, herra forseti, í fyrsta lagi að gagnstætt því sem haldið hefur verið fram þá er Áburðarverksmiðjan að mörgu leyti eitt umhverfisvænsta fyrirtæki á Íslandi. Þegar koldíoxíðbúskapur hennar er skoðaður kemur það í ljós að hún er mikilvægt framlag Íslendinga til þess að minnka koldíoxíðútblástur í heiminum frá því sem ella væri og munar þar hvorki meira né minna en um 15.500 tonnum á ári að því er talið er. Sömuleiðis hafa menn talið að köfnunarefnisoxíð sem frá Áburðarverksmiðjunni kemur væri svo mikið að það væri hættulegt. Staðreyndin er sú að margir aðrir þættir í okkar umhverfi menga meira að því er varðar útblástur á köfnunarefnisoxíði heldur en Áburðarverksmiðjan. Í öðru lagi er Áburðarverksmiðjan mjög hagkvæm verksmiðja. Og kostnaður á framleitt tonn af áburði hefur lækkað um 52% hvorki meira né minna frá árinu 1985.

[14:15]

Í þriðja lagi er Áburðarverksmiðjan hagkvæm fyrir landbúnaðinn og það skiptir ekki litlu máli. Í ljós kemur við athuganir að ef Áburðarverksmiðjunni yrði lokað þá yrði að flytja inn áburð í miklu stærri skömmtum en menn hafa til þessa talið. Hann yrði af annarri kornastærð en heppilegt er fyrir íslenskan landbúnað og auk þess telja allir sem til þekkja að þó að verðið á innfluttum áburði yrði lægra til að byrja með þá megi búast við að áburðarverð hækki þegar fram í sækti eftir að erlendir aðilar og aðrir aðilar hefðu öðlast einokun á sölu áburðar hér á landi.

Í fjórða lagi er Áburðarverksmiðjan mikilvæg starfsmiðstöð vegna þess að þar starfa milli 70 og 100 manns. Og hér eru menn stundum að fjalla um frv. um stóriðju, t.d. um stækkun álversins í Straumsvík, við það starfa í kringum 60--70 manns eða heldur færri en í Áburðarverksmiðjunni. Það er kannski líka umhugsunarvert að við stækkun Grundartangaverksmiðjunnar, sem menn eru að tala um hér, mun starfstækifærum ekki fjölga að neinu marki vegna þess að stefna Elkem er sú að fækka starfsliði enn þá meira en verið hefur. Þá er mikilvægt að taka fram að Áburðarverksmiðjan er með starfslið sem hefur mikilvæga sérfræðiþekkingu, m.a. á meðferð ýmissa hættulegra efna, sérfræðiþekkingu sem færi forgörðum fyrir Íslendinga ef verksmiðjunni yrði lokað.

Í fimmta lagi felst í starfrækslu Áburðarverksmiðjunnar mikið öryggi fyrir landið vegna þess að hún framleiðir efni sem við yrðum ella að flytja inn, kannski á mörgum stöðum, mörgum höfnum allt í kringum landið.

Í sjötta lagi vil ég nefna í þessu sambandi að ég tel að stjórnvöld hafi verið seinfær og dáðlaus varðandi málefni Áburðarverksmiðjunnar. Ég tel að landbrn. hafi ekki beitt sér af þeim myndarskap sem það ætti að gera til að tryggja starfsemi verksmiðjunnar. Ég tel að stjórn verksmiðjunnar hafi ekki staðið sig sem skyldi, m.a. ákvað stjórn verksmiðjunnar að hætta öllum tilraunum til að koma annarri framleiðslu af stað í Áburðarverksmiðjunni meðan einkavæðingarnefnd væri að störfum. Þá er ég kominn að þessari einkavæðingarnefnd. Hún hefur orðið til stórkostlegs skaða fyrir Áburðarsverksmiðjuna og hefur verið ákaflega seinfær. Fékk málið í fyrra og það er ekki fyrr en núna fyrir nokkrum dögum eða örfáum vikum að einkavæðingarnefndin svokallaða kemst að þeirri niðurstöðu hvernig eigi að standa að sölu á Áburðarverksmiðjunni og verksmiðjan hefur nú verið auglýst til sölu með tilteknum skilmálum sem ég held að séu satt að segja afar vafasamir. Einkavæðingarnefnd er náttúrlega kapítuli út af fyrir sig. Það eru engin lög til um einkavæðingarnefnd, hún er skipuð samkvæmt ráðherrabréfi en hún hagar sér hins vegar eins og yfirráðuneyti og ræður oft, finnst mér, yfir ráðherrunum ef eitthvað er, sem er dálítið umhugsunarefni því auðvitað er landbrh. í þessu tilviki sjálfstætt stjórnvald og enginn undirmaður einkavæðingarnefndar.

Herra forseti. Af þessu tilefni öllu spyr ég hæstv. landbrh. hvað hann hyggist gera til að tryggja starfsemi Áburðarverksmiðjunnar áfram. Er hann tilbúinn til að beita sér fyrir átaki allra þeirra sem eiga hlut að máli, þ.e. ríkisins, Bændasamtakanna, Reykjavíkurborgar og Landsvirkjunar, til að tryggja að þetta mikilvæga fyrirtæki geti a.m.k. starfað í fimm eða tíu ár í viðbót meðan við erum að átta okkur á hver staða áburðarframleiðslu á Íslandi er í alþjóðlegri samkeppni?